Jæja

Jæja þá erum við svona að vera búin að koma okkur fyrir en þó við erum ekki með nein húsgögn. Við nennum ómögulega að ná í búslóðina okkar upp á höfða enda ekkert skrítið þar sem þeir eru ekki með opið um helgar eða eftir 17. Hvernig á maður að ná í hana annars? Anyways. Við fórum í Heimilistæki og keyptum, þvottavél, þurrkara, uppþvottavél og risa ísskáp (hann er svo stór að þó ég teygi mig alveg upp þá næ ég ekki upp í topp- segir kannski meira um mig en ísskápinn en sama er, hann er 187 á hæð og uppi á 10 cm palli). Við fengum frábæra þjónustu (um að gera að taka það fram) og góðan afslátt. Eldavélina ætlum við svo að kaupa í Eirvík (Smeg gashellur og rafmagnsofn í einu stykki), hlakka ekkert smá til því þá get ég líka hent út gömlu Rafha mini-eldavélinni sem nú er í eldhúsinu.

Við þurftum að rífa skúffurnar af einni einingunni í eldhúsinu til að koma ísskápnum fyrir og vitum ekki alveg hvernig þetta endar allt saman. Uppþvottavélin kemst heldur ekki fyrir svo við þurfum að rífa eldhúsinnréttinguna eitthvað niður. Við vissum það svo sem. Það er líka á dagskrá að henda innréttingunni út og setja eitthvað annað en það verður að bíða smá. Einnig þarf Jóhannes að rífa eitthvað út og breyta ef hann ætlar að koma gyðjunni sinni og systur hennar fyrir. Það verður fróðlegt.... Ég er alveg að búast við stríði um eldhússentimetra...... Er líka búin að sjá að mig vantar um 30 fm eldhús í það minnsta. Já hann keypti líka nýjan malara sem er STÆRRI en Elektra stóra kaffivélin. Held að hann sé að verða vitlaus. Æi sumir kaupa dýra bíla......

Við fórum og versluðum aðeins inn í síðustu viku. Get nú ekki sagt að ég finni mikinn mun á þessari lækkun á matvöruverði. Sumt hefur hækkað síðan í Janúar. Vöruúrval er samt nokkuð gott svona miðað við....Það er hægt að fá fínar heilsuvörur í Fjarðarkaupum, Hagkaupum og svo auðvitað Yggdrasli og fleiri búðum. Það pirrar mig samt að það er ekki til Kallo "puffed rice" (mjög sniðugt í margt eins og kraftaköggla og án glúteins), það er ekki til "rice cakes" frá Real Foods (og ekkert yfirhöfuð frá Real Foods), það er heldur ekki til hreint soyajógúrt frá Alpro sem er fáránlegt (bara til litlar dósir með ýmsum bragðtegundum) og svo eru mörg önnur vörumerki sem ég sakna alveg hroðalega. Kannski að maður geti breytt því....sjáum til.

Svo eru það bílamálin.... við erum búin að fara á 100 bílasölur því við erum með ákveðinn bíl og ákveðna týpu í huga....meira vesenið sko. Þessir bílar sem við erum að spá í eru nefnilega það góðir í endursölu að sumir stoppa bara 30 mínútur á bílasölu (höfum lent 2var í því síðustu daga) og fólk er ekkert að tíma að selja þessa bíla. Fengum frábæra þjónustu upp á Bílasölu Reykjavíkur (Höfða) sem og í Arctic Trucks (líka á Höfða). Erum sem sagt að spá í ákveðna tegund af jeppa (engar áhyggjur, ég veit þeir menga og ég mun ráðstafa fé til einhverra sem geta gróðursett tré í staðinn).

Þetta fer vonandi að smella saman. Það hefur ekki beint verið notalegt við okkur veðrið síðustu daga...slydda, haglél, rigning, sól allt á innan við 2 tímum í gær.

Jæja áfram með smjörið og vinnuna.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It