Komin "heim"

Við erum komin "heim". Ég set "heim" í gæsalappir því annar fóturinn á okkur varð alveg örugglega eftir í London eða hjartað jafnvel. Það er mikill tregi en við erum búin að vera dugleg að pússa fallegu gleraugun okkar. Ótrúleg tilviljun..... í hvert skipti sem ég hef komið til Íslands, í hverjum mánuði þessi 2 ár sem við bjuggum úti þá hefur flugfreyjan alltaf sagt: "Góðir farþegar....velkomin heim" en núna sagði hún "Góðir farþegar...... velkomin til Keflavíkur". Skýrt merki fannst okkur um að við ættum að fara aftur til London he he.

Eigendur íbúðarinnar í London kíktu við þegar við vorum að fara og voru alsæl með ástandið á henni. Enda máttu þau alveg vera það, við vorum búin að þrífa íbúðina í 3 daga og hún glansaði. Við vildum líka skila henni í toppstandi og lögðum okkur því fram eins og við gátum um að skila henni þannig. Þau voru búin að fá 6 tilboð í íbúðina og fólk var farið að yfirbjóða hæsta tilboð. Þau voru í skýjunum yfir því auðvitað.

Þau voru búin að segja okkur fyrir löngu að við fengjum 1800 pundin sem við lögðum í tryggingu (6 vikna leiga) öll til baka sem er ekkert endilega alltaf í London, það er alltaf verið að svindla á leigjendum. Þau voru mjög ánægð með þessa íslensku leigjendur enda leið okkur alveg frábærlega í íbúðinni (fyrir utan innbrotið) og var aldrei neitt vesen á eigendunum.

Við vorum svo alveg sérstaklega heppin í gær....Málið er...þegar við vorum búin að troða í ferðatöskurnar okkar tvær í gær og ég meina að TROÐA þá komumst við að því (30 mínútum áður en leigubíllinn kom að sækja okkur) að það var fullt af dóti inni í skáp sem við höfðum gleymt. Það var stórt eldfast mót, panna, 2 leirdiskar mjög þungir og eitthvað meira. Nú voru góð ráð dýr. Ég reif allt upp úr töskunum stóru og umpakkaði. Við sátum því eftir með 3 ferðatöskur og yfirvofandi svimandi yfirvigt. Við fórum út á völl (okkur leið eins og við værum á leið í eigin jarðarför) og bjuggumst við því að þurfa að tæma buddurnar. Við svitnuðum þegar við sáum hversu þungar töskurnar voru. Samanlegt vorum við með 62 kíló (maður má vera með 40) + um 20 í handfarangri. Við vorum með tæp 90 kíló í allt og um 30 kíló í beinni yfirvigt. Það hefði getað kostað okkur um 27 þúsund krónur eða meira. En viti menn...... við þurftum ekki að borga krónu og ég varð alveg rothissa!! Ég hef aldrei á ævinni þurft að borga yfirvigt (hef stundum verið með um 5 -10 kg eða svo) en það bætist kannski ofan á mína persónulegu þyngd sem er undir meðallagi og jafnast út. Veit ekki en við vorum allavega glöð og þetta hjálpaði aðeins upp á gloomy skapið í okkur.

Slyddan hjálpaði ekki til í gærkvöldi og í dag en við pússum gleraugun okkar bara áfram og verum bjartsýn. Nú er líka styttra í að við prófum eitthvað nýtt einhvers staðar út í heimi! Við ætlum líka að láta okkur hlakka til að fara í göngur og ferðalög og svoleiðis. Einn dagur í einu....

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Hrundski
12. mar. 2007

Hafið það gott á Íslandinu góða :)

Starbucks á örugglega eftir að loka nokkrum kaffihúsum fyrst þið eruð farin og ég fer svo sjaldan niðrí bæ - stórtapa alveg hihihi.

Alveg bannað að hætta að blogga þó þið séuð flutt heim.

Hilsen

H