Á netinu hennar Söru

Er ekki kominn tími til að kynna íbúa hússins sem við búum í? Ekki seinna að vænna. Við búum í svolítið sérstöku húsi hér í London. Við erum afar miðsvæðis, bara 5 mínútna gangur frá Oxford Circus og í næstu götu við Regent Street. Húsið okkar er 6 hæða alveg frá kjallara og upp í ris. Það sem er sérstakt við húsið er að af 6 íbúðum eru 4 íbúðir sem innihalda íbúa sem flakka á milli landa reglulega vegna vinnu eða búsetu. Það er því oft sem enginn er heima í öllu húsinu. Húsið er að grunninum til síðan 1700 og eitthvað en var endurbyggt eftir það. Það heitir eftir listamanninum Hogarth sem var grafíklistamaður og teiknari mikill en hann á að hafa búið hér um slóðir. Öll húsin í kring heita eftir frægum listamönnum. Húsið er barnlaust og afar rólegt, aldrei læti og alltaf þögn á kvöldin nema þegar fólk burðast með töskur upp og niður stiga eins og kemur oft fyrir :)

Íbúð 1, efsta hæð (5. hæð): Howard, um 60 ára. Howard er prófessor (doktor) við LSE skólann í London. Enskan hann er sérlega ómþýð og falleg. Stundum býr "vinur" Howards hjá honum en okkur grunar nú að þeir séu meira en vinir :) Howard á líka íbúð í París, álíka miðsvæðis og þessi er í London. Þær keypti hann fyrir um 20 árum. Hann flakkar reglulega á milli, yfirleitt aðra hvora viku. Howard er "húsvörðurinn" sem er fyndið því hann er eiginlega aldrei heima og við höfum rekist einu sinni á hann. Útsýnið úr íbúðinni hans er þannig að ég myndi gefa honum nýrað í skiptum fyrir innborgun á íbúðinni.

Íbúð 2, 4. hæð: Sarah. Sarah er um 35 ára, býr ein og vinnur í sjónvarpsgeiranum, BBC að við höldum. Hún rogast reglulega með þungar töskur upp og niður því hún ferðast mikið, er ekkert alltaf heima. Hún hefur reynst okkur vel og til dæmis er ég að nota þráðlausa netið hennar núna því okkar er bilað.

Íbúð 3, 3. hæð: Sigrún og Jóhannes, veiiiiiii. Íbúðina eiga Richard og Louise sem eru Bretar en þau búa reyndar í Dubai. Afar fín hjón og þægilegt að eiga við þau. Þau ætla að selja íbúðina þegar við flytjum. Kannski að þau myndu þiggja annað nýrað úr Jóhannesi í skiptum fyrir innborgun he he. Það var víst gamall maður sem bjó hér áður en þau keyptu og hann var einhver frægur Shakespeare leikari.

Íbúð 4, 2. hæð: Judy (og maðurinn hennar eða þegar hann er heima). Judy og maðurinn hennar hafa búið hérna síðustu 20 árin eða svo. Þau keyptu nýverið hús í Suður - Frakklandi sem þau ætla að búa í þegar þau eru bæði komin á eftirlaun. Hann er kominn á eftirlaun og býr þar mest allan tímann og hún fer þangað alltaf þegar hún getur. Hann hringir reglulega í hana til að kvarta yfir veðrinu og ef maður lendir á kjaftatörn við Judy gæti það tekið alveg 2 klukkutíma. Hún talar stanslaust við sjálfa sig. Hún er bókasafnsfræðingur og sér ótrúlega illa, eiginlega eins og moldvarpa því hún er með svona flöskubotnsgleraugu. Okkur grunar að hún þekki okkur bara af röddinni, svo illa sér hún frá sér. Hún er voða góð við okkur og vill alls ekki að við flytjum. Hún sagði að fyrra bragði að hún ætlar að láta okkur vita þegar hún selur sína íbúð eftir 2 ár eða svo.

Íbúð 5, 1. hæð: Man ekki hvað þau heita, eru búin að búa hérna í cirka 6 mánuði. Við höfum aldrei rekist á hjónin (eru um 35-40 ára) og það fer lítið fyrir þeim. Erum dauðfegin að losna við stelpurnar sem bjuggu þar áður því þær lærðu aldrei á því ári sem þær bjuggu hér að a) raða pósti í gluggann svo að hinir íbúarnir geti fundið póstinn sinn fljótt (sá sem er fyrstur út fær þetta verkefni) og b) að toga í hurðina þannig að hún fari örugglega í lás. Gamla læsingin var þannig að það læstist ekki nema maður togaði. Druslurnar gerðu þetta aldrei þó að væri búið að senda þeim bréf þess efnis nokkrum dögum ÁÐUR en var brotist inn til okkar einmitt af því útidyrahurðin var opin #$%&&/((()&$##"!

Íbúð 6, kjallari: Dularfulli maðurinn. Hann heitir Peter og er prófessor í einhverju. Hann fær póst um bensínmál, tölvur og svoleiðis. Hann er með eitthvað fyrirtæki en ómögulegt að segja til um hvað það gerir. Sérlega dularfullt einmitt daginn þegar kveiknaði í íbúðinni hans þá sagði Sarah að hann hefði staðið fyrir utan húsið þegar hann fór sama morgun og horft á það. Sama dag sá ég líka póst til hans um Petroleum (bensín) eitthvað. Hans íbúð er með sérinngangi og við sjáum hann aldrei koma inn. Hann tekur aldrei ruslpóstinn og raðar aldrei upp annarra manna pósti. Er ekkert sérlega vinsæll. Ef eitthvað er í ólagi í ganginum er honum kennt um það (þó hann eigi eflaust ekki nema 20% af því skilið). Komumst að því þegar kveiknaði í íbúðinni að hann á ársgamalt barn með konu sem hann býr með þarna niðri sem enginn hefur séð eða heyrt um.

Nú jæja þetta var upptalningin á íbúum hússins sem við búum í. Það er mátulega mikið af fólki í því og þetta er besta íbúð sem við hefðum hugsanlega getað leigt. Við eigum eftir að sakna hennar alveg fáránlega. Ef einhver á cirka 50 milljónir í styrk þá myndum við þiggja þær (eða kannski bara 5 þess vegna, allur peningur vel þeginn he he). Íbúðin fer sem sagt á cirka 50 milljónir (samt bara um 55 fm og 2ja herbergja! þ.e. stofa og herbergi). Svo eru Íslendingar að kvarta!!

Jæja það er best að fara að vinna, alveg óþolandi að vera svona netlaus alla daga. Jóhannes hringdi í gær og skammaðist. Þeir gátu sagt okkur eftir 24 tíma að það VÆRI vandamál en að það tæki aðra 24 tíma að komast að því HVAÐ vandamálið væri. Jóhannes lét þá líka heyra það.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It