Stökk á Starbucks

Blettatígur align=Jæja þá erum við komin aftur til London og ég var ekki étin af ljónum (mætti halda það, hef ekkert bloggað síðan ég veit ekki hvenær). Ferðin gekk í alla staði vel og Jóhannes trítlaði upp Kilimanjaro við léttan leik og dró á eftir sér 11 manns af 12 sem reyndu. Það þykir bara gott hlutfall. Á meðan var ég með Borgari og Elínu og vinafólki þeirra, fór meðal annars í Masai Mara, hitti stríðsmenn og skaut ljón (með myndavél, ekki byssu auðvitað :)) Sáum líka blettatígur á veiðum (eða hann var að æfa sig, var bara vitlaus unglingur). Það var algerlega magnað engu að síður. Þið sjáið myndina af honum hérna, eftir hlaupin. 3/4 af öllum tilraunum misheppnast hjá greyunum og ef þeir hlaupa meira en 90 sekúndur ofhitnar heilinn í þeim.

Eftir safarí, hitti ég fyrir Jóhannes við landamæri Tanzaníu og við fórum samferða inn í Tsavo West þjóðgarðinn. Það var mjög skemmtilegt, hópurinn gisti á fræbærum stað sem var eiginlega bara í óbyggðum og ekki amaleg kyrrðin og sólsetrið. Þarna sáum við líka hlébarða (sá bara skottið á honum í Masai Mara) og hann sat tígulegur uppi á steini. Við sáum þar flest öll dýrin sem við hefðum viljað sjá nema sáum ekki ljón sem eru alltaf smá vonbrigði en við vorum samt heppin að sjá hlébarðann.

Eftir Tsavo East fórum við svo til strandarinnar og lágum þar í leti í 2 daga eða hópurinn réttara sagt því Jóhannes var auðvitað kominn í tölvulagfæringar eftir hálftíma eða svo en það var bara gaman því það er alltaf gaman að hitta Stephanie og Roland manninn hennar (Stephanie vinnur fyrir Borgar). Við skoðuðum líka hús Danielle sem var í byggingu í fyrra (glöggir notendur muna eftir myndum af vefnum okkar frá því í fyrra) og húsin sem búið er að byggja þar (tréhús sem eru byggð utan um eitt tré hvert) við ströndina. Afar exclusive og flott.

Síðasta kvöldið var hópurinn svo í Mombasa (gisting í stórum og flottum íbúðum með útsýni yfir Mombasa eyjuna og meginlandið) og það var að margra mati ein fallegasta og notalegast kvöldstundin í allri ferðinni (þrátt fyrir kvöldstundir í óbyggðum með hléberðaurr, engisprettuhljóð nú eða við nið Indlandshafs). Við sigldum nefnilega á Tamarind Dhow sem er skúta í gömlum stíl og þar var matur framreiddur á meðan við sigldum utan með Mombasa við undirleik innfæddra hljóðfæraleikara. Reglulega skemmtilegt.

En já sem sagt, við erum komin heilu á höldnu og við nennum engan veginn að vera að flytja heim eftir 10 daga eða svo. Er ekki að meika það að komast ekki í paradís í hverju hádegi (stóru heilsubúðirnar hérna allt um kring) en svona er það, vinnan kallar. Það er heldur enginn að segja að við getum ekki komið hingað aftur (eða eitthvert annað) þegar fram líða stundir.

En það er best að fara að kaupa sér meira kaffi, er nefnilega á Starbucks að vinna því Netið dó heima og það tekur aðeins 24 TÍMA að fá einhvern til að skoða málið. Fáránlegt. En svo sem björtu hliðarnar það hefði tekið 24 daga í Kenya he he.

Það eru að sjálfsögðu nokkrar uppskriftir sem ég sankaði að mér á leiðinni eins og ég geri alltaf og ég birti þær á vefnum eins og venjulega (þeir sem eru á póstlista fá þær auðvitað sendar beint í æð).

Einu gleymi ég alltaf. Kærar þakkir allir fyrir kommentin og póstinn sem þið sendið á mig. Það er reglulega gaman að fá þessi komment og er aldeilis klapp á bakið. Ég hristi stundum hausinn yfir sjálfri mér þegar ég stend yfir pottunum í marga klukkutíma eða er að gera tilraunir kvöld eftir kvöld eftir kvöld í eldhúsinu. Það sem gerir það þess virði er að sjá hversu margir hafa gagn og gaman að og láta mig vita af því. Kærar þakkir fyrir það.

Myndir úr ferðinni koma seinna :)

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Helen
28. feb. 2007

velkomin heim!

Hlakka til að sjá myndir og nýjar uppskriftir! Var annars að prufa bláberja-valhnetumöffinsana... nammi namm! :)

Þú átt sko þakkir skilið fyrir að nenna þessu og deila þessu með okkur hinum. Það hefur sannarlega orðið lífstílsbreyting á mínu heimili eftir að ég fór inná síðuna þína fyrst :)

kveðja, Helen