Komin til London, röfl og rugl og fleira

Jæja

Þá er þessum ferðalögum lokið hjá mér, kaflaskil og allt það, flutningar heim í næsta mánuði. Tvö ár og flug heim einu sinni í mánuði gera um 24 flugferðir utan allar ferðirnar sem við fórum heim svona auka yfir sumarið og svoleiðis. Er farin að dauðskammast mín fyrir að skemma allt fyrir ísbjörnunum. Ísinn bráðnar og ísbirnirnir depast af því ég flýg svo oft á milli landa (fyrir utan allar aðrar náttúru-hrakfarir vegna hlýnandi loftslags). Aumingja Ívar ísbjörn sem ég ættleiddi í jólagjöf handa Jóhannesi. Vona að hann sé enn þá á lífi.

Nýkomin frá Tokyo, skrapp til Íslands og er að fara til Kenya. Þrjár heimsálfur á rétt rúmum mánuði. Það er ágætt....nema fyrir umhverfið. Þess vegna erum við farin að borga aðilum sem sjá um að jafna út umhverfisáhrifin af fluginu. Ekki það að það komi í staðinn fyrir að fljúga ekki en ef maður vill ekki/getur ekki sleppt því þá er þetta það næst besta í stöðunni og minnkar samviskubitið aðeins.

Ein spurning til Icelandair, alveg ótengd umhverfisslysum (og þó). HVERS VEGNA að sýna Groundhog Day? Ok myndin er klassamynd (fyrir fólk sem fattar hana) en hún var gerð 1980 og eitthvað? Næsta skref eru myndir í svart hvítu. Reyndar...einu sinni var ég búin að fljúga með sömu rellunni í nokkur skipti og það var ekki fyrr en í 4ða skipti að ég áttaði mig á því að það sem var verið að sýna, var ekki í svart hvítu heldur var skjárinn gamall og bilaður.....Sérlega traustvekjandi og metnaðarfullt!

En já, áfram með röflið, sá að símaskráin er búin að gera samning heima um að planta árlega 1500 plöntum. Það er hið besta mál. Annars hlýtur prentuðum eintökum að fækka helling, símaskráin á Netinu er svo ansi góð.

Ef allir gerðu sitt til að hjálpa til, leggðust á eitt um að gera eitthvað í málefnum umhverfisins og náttúrunnar (bara það að eyða ekki rafmagni eða vatni að óþörfu, spara bílinn ef maður getur) þá væri heimurinn betri. Svona eins og þegar allir tryllast yfir handbolta eða Íslendingi í einhverri söngkeppni eða hvað þetta heitir (eitthvað sem er sérlega skondið að fylgjast með úr fjarlægð því ég get ekki annað en hrist hausinn yfir múgæsingnum he he) og ef allir myndu verða svona æstir yfir náttúruvernd og endurvinnslu þá myndi þetta heldur betur takast. Það er ólíklegt samt að það takist, nema við höldum svona "endurvinnslu idol", "xfactor umhverfisvernd" "landsliðskeppni í rafmagnssparnaði"...Hmmmm...

Er alveg drullukvíðin því að þurfa að reyna að leita uppi "free range" og lífrænt ræktaðan kjúkling og svoleiðis fyrir Jóhannes á Íslandi. Hvernig á ég að elda kjúklingarétt ef kjúklingurinn hefur ekki fengið að borða hollan og góðan mat í lífinu og fengið að vappa um frjáls? Ég bara get það ekki. Ég get ekki búið til mat fyrir aðra úr dýri sem hefur verið í búri alla sína ævi. Ef einhver veit um stað á Íslandi sem selur "free range" og lífrænt ræktað kjöt þá ENDILEGA vil ég vita um hann. Sá staður yrði vel auglýstur á þessum vef, það er alveg á hreinu. Veit um svo marga sem myndu vilja kaupa "free range" kjöt. Ég er líka kvíðin því að kaupa hnetusmjörsdós á 539 krónur þegar sama varan, sama stærð, sama vörumerki, kostar 190 krónur í Bretlandi. Hvernig getur þessi verðmunur átt sér stað? Þetta var bara eitt dæmi. Ég heimsæki heilsubúð nánast á hverjum degi í London og alltaf þegar ég fer heim til Íslands og mér liggur við gráti þegar ég labba út úr búðunum heima. Það sem er merkilegt er að pinkulitla heilsubúðin á horni Klapparstígs og Njálsgötu er með ódýrustu vörurnar? Er ekki eitthvað gruggugt við það? Einnig eru þeir með ódýrustu hreinsivörurnar frá Ecover sem er frábært merki sem ég mæli með.

Nú er ég bara að reyna að losna við hálsbólguna sem er að hrjá mig áður en ég fer til Kenya. Er dauðfegin að fá þessa pest núna því ég veit af reynslu að það er ekki gaman að vera með hósta dauðans í yfir 30 stiga hita, maður svitnar og fær hausverk og allan pakkann. Betra að losna við þetta strax. Get annars verið ánægð með mig bara. Fyrir svona 10 árum síðan fékk ég alltaf á 2ja-3ja mánaða fresti slæmt kvef og hálsbólgu. Ég merkti inn á dagatalið gróflega svo ég vissi hvenær það yrði næst og það stemmdi alltaf. Það var 100% pottþétt. Svo breytti ég meðvitað mataræðinu þ.e. ég hafði alltaf hugsað vel um það en fór að hugsa extra vel um það (nota spelti í stað heilhveitis, meira grænmeti, meiri ávexti á hverjum degi og allt það) og ég fæ kvef og hálsbólgu í mesta lagi einu sinni á ári og það í febrúar þegar allir fá flensu hvort eð er. Það er ágætt að fá eina pest til að styrkja ónæmiskerfið en ég verð nánast aldrei veik, af sem áður var. Einu sinni fékk ég 2 mjög slæmar flensur (alvöru flensur) með nokkurra vikna millibili fyrir utan allar kvefpestirnar. Ég var heilt ár að ná mér upp úr því. Ég er viss um að ef ég hefði borðað almennilega og meðvitað passað vítamín og fleira, hefði ég ekki orðið svona veik.

Það eru annars spennandi nýjungar að líta dagsins ljós bráðum á CafeSigrun svo fylgist endilega með! Ég mun senda ykkur á póstlistanum fréttir fyrst auðvitað :) Svo hlakka ég til að fara til Kenya því ég fæ alltaf einhverjar skemmtilegar uppskriftir frá kokkunum þar. Get ekki beðið eftir því að koma heim með uppskrift frá innfæddum, mig langar að finna einhvern góðan baunarétt... það verður planið :) Þið verðið auðvitað fyrst til að fá uppskriftirnar sendar!!!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It