Jólakortaleysi

Hrmmfppffhhhh. Við erum búin að fá 2 jólakort so far. Það sorglega er að annað þeirra er frá endurskoðanda fyrirtækis okkar hér í London :( Svo erum við búin að fá eitt í gegnum lúguna frá Marie og Pete vinum okkar sem búa hérna rétt hjá okkur. (Marie var að vinna með Jóhannesi í Disney og þau dvöldu hjá okkur yfir jólin 2004). Ég eða við erum ekki búin að fá eitt einasta jólakort til okkar sent í pósti... með frímerki og öllu. Margir segjast ekki vita hvert eigi að senda okkur því við erum alltaf eitthvað að flytja en það má alltaf senda á foreldra mína, mömmu Jóhannesar o.s.frv. Það skilar sér að lokum Það er ekki erfitt að finna út heimilisfang fólks, alls ekki. Maður getur t.d. sent sms til að fá upplýsingar, maður getur sent tölvupóst, maður getur hringt í fjölskyldumeðlimi, maður getur skoðað símaskrána bæði á Netinu sem og í pappírsformi. Það má nota ýmsar aðferðir ef maður hefur áhuga á því. Ég auglýsi hér með eftir jólakortum, annars leggst ég í jólakortaþunglyndi og finnst ég ekki eiga neina vini. Þau má senda á foreldra mína, á heimilisfangið okkar á Íslandi eða hingað út.

Ekki heldur REYNA að spila umhverfisvæniskortið hér því það má kaupa 100% endurnýttan pappír eins og ég geri OG ég styrki gott málefni í leiðinni (styrkjum Oxfam í ár). Það hafa nefnilega sumir reynt þetta og sagt að það sé betra að senda jólakort á Netinu. Jú jú svo sem gott og blessað ef þetta fólk væri í endurvinnslupælingum með EITTHVAÐ annað yfir höfuð. Svo þýðir ekkert að segjast ætla að spara pappír og bla bla og gleyma svo að senda jólakort á Netinu. Þá fer ég bara að grenja. Er ekki mikið fyrir hefðir né jólahefðir en finnst gaman að fá jólakort, vil horfa á fullan poka af jólapósti í langan tíma. Þó við eigum ekki börn þá erum við ekki þar með talið 'dottin út' úr jólunum sko eins og sumir virðast halda!!!!!!! Kannski við flytjum bara til Japan og eignumst fullt af vinum þar (af mörgu fólki er að taka) og fáum svo spennandi jólakort eftir að við flytjum heim og allir öfunda okkur. Sjáið bara hvað ég er örvæntingarfull????

Stóð áðan fyrir framan bréfabunkann niðri og var að spá í að stela jólakortum frá Judith á neðri hæðinni. Hún er eldri kona og fær milljón jólakort. Þau hrúgast inn til hennar (og mannsins hennar). Þetta er ekki sanngjarnt. Við vorum að velta því fyrir okkur áðan að taka ekki jólakortið sem við fengum í morgun fyrr en eftir nokkra daga, bara svona til að sýna að við höfum þó fengið eitt jólakort. Ég fer að gera eins og Lína langsokkur, skrifa sjálfri mér bara. Dear Sigrun.... have a very nice christmas o.s.frv. :(

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Hrundski
15. des. 2006

Við erum búin að fá 1 kort - það er frá leigubílastöðinni sem keyrir okkur út á Heathrow :( sorglegt........

Melkorka
15. des. 2006

ég er búin að fá tvö kort. Ertu búin að gleyma að íslendingar elska að gera allt á síðustu stundu.

gestur
16. des. 2006

he he ég er buin að fá 5 kort en opna þau ekki fyr en um kl 9 24 des ekkert komið til þin ( enn )