Og enn af þjónustu (þjónustuleysi) á Íslandi

Já já. Það er bara framhald sko. Reyndar ekki úr Máli og Menningu eins og fyrri sagan heldur úr kaffihúsi aðeins ofar á Laugaveginum...... Hér hefst sagan:

Ég var á leið í klippingu í gær og ákvað að grípa með mér kaffibolla. Ég vissi að vegna anna í vinnunni yrði ég að vinna lengi fram eftir. Ég ákvað því að verðlauna mig smá (fæ mér yfirleitt bara 1 bolla á dag á Kaffitári en ákvað að gefa Te og Kaffi enn einn sénsinn. Þetta var síðasti sénsinn þeirra. Í hvert einasta skipti sem ég hef komið þangað síðan þeir opnuðu á nýja staðnum hef ég hugsað..."ok næst verður það betra", "næst verður þjónustan í lagi", "næst þarf ég ekki að bíða í 40 mínútur eftir kaffinu mínu", "næst eiga þeir koffeinlaust kaffi", "næst fæ ég afgreiðslumanneskju sem horfir ekki á mig eins og hún sé að horfa á lifandi veru í fyrsta skipti" o.s.frv. Ég er mjög jákvæð og bjartsýn svona yfirleitt sko en ég held ég hafi bara tapað trúnni... (þá einu sem ég hafði he he).

En já, ég labba glöð í bragði inn á Te og Kaffi. Ég legg fram pöntun mína og stúlkan horfir á mig afsakandi og segir "sorry I don't speak Icelandic". Nú jæja hugsaði ég, það er allt í góðu. Ég er sjálf útlendingur í núverandi 'heimalandi' og er vön því að þurfa að tala hægt og skýrt þegar ég panta eitthvað. Allt í fína og ég endurtek pöntunina á ensku. Hún slær inn upphæðina og segir svo 430 krónur (ok fyrir það fyrsta þá er það fáránlegt verð en jæja, allt í lagi, bara venjulegt verð hjá Te og Kaffi á einum latte). Ég tók svo upp trompið mitt, fjársjóðinn minn, útklippt kaffikort frá Te og Kaffi til að nota í síðasta bollann. Útklippt kaffikort þýðir að maður hefur eytt tæpum 5000 krónum í kaffi hjá viðkomandi fyrirtæki. Það finnst mér slatti mikill peningur. Það sýnir líka tryggð viðskiptavinar. Það er ekki tilviljun að slíkt kaffikort kallast 'loyalty card' (sem gæti útlagst sem tryggðarkort viðskiptavinar).

Ég rétti henni sem sagt kortið og hún sagði "We don't accept this" (við tökum ekki við þessu). Ég varð eins og gullfiskur í framan. "WHAT?", "What do you mean, you don't accept it?". Hún sagði "We are now a different company". Haaaaaaaaaa? (ok ég bý ekki á landinu og það var ekkert sem gaf þetta til kynna nema umræða í blöðum sem ég var búin að gleyma). "And you won't accept it this one last time" spurði ég í veikri von og lá við með kökk í hálsinum. "No, we are now owned by another company and are called........ (og hér kemur besti parturinn.....) eeeerrrrrrrrrr........ let me check....... (leitar í pappírum)..... "hey" (kallar í kollega sinn)..."what is it called now?"......(hann heyrir ekki í henni og á endanum finnur hún upplýsingarnar)......"yes we are now called vuuuuuuuuuuur" (sem átti reyndar að vera "Vor" að ég held). Ok á meðan stúlkan skrapp frá ákvað ég að tala við kollega hennar og athuga hvort þetta virkilega væri niðurstaðan......"Sorry don't understand Icelandic".

Ég varð verulega, verulega sár. Meira sár en reið. Mér fannst trausti mínu sem viðskiptavinar brugðið. Ég skil ekki alveg rökhugsunina (eða leysið) á bak við þetta. Sko. Ef þeir hefðu tekið kortið þá hefði ég hugsað "vá frábært, ég gef þeim annan séns og segi öðrum frá því líka að ég hafi fengið góða þjónustu".....í staðinn tóku þeir ekki við kortinu mínu og niðurstaðan er sú að ég fer aldrei þarna inn aftur (nema einhver bjóði mér, ég ætla ekki að leggja peningana mína í þá allavega) og ég skrifa um það hér á blogginu mínu sem mörg hundruð manns lesa daglega. Ég skil heldur ekki að manneskjan hafi ekki hugsað aðeins lengra en 2 millimetra fram í tímann og hugsað... "já greinilega góður viðskiptavinur (greinilegt að hún stuðlar að því að ég HAFI í fyrsta lagi vinnu) og ég ætti nú að hleypa henni í gegn með þetta kort þar sem ég vil að hún haldi ÁFRAM að versla við okkur þó við heitum núna "vuuuuuuuuuuuuuuur"". Gáfulegt? Nei held ekki. Te og Kaffi eða "Vor" eða "vuuuuuuuuuuuuuur" eða whatever eru búnir með síðasta sénsinn sinn.......það þarf allavega kraftaverk til að ég eyði peningunum mínum í þennan stað.

P.s. þetta gæti alveg hafa gerst í London líka (þ.e. á ekki bara við um Ísland) en munurinn er sá að þar hefði afgreiðslustúlkan ráðfært sig við sinn yfirmann því hún hefði getað átt það á hættu að verða rekin ef ég hefði kvartað.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Helen Garðarsdóttir
15. nóv. 2006

Ja hérna, maður er bara orðlaus yfir svona vitleysu!

Þóranna
15. nóv. 2006

Góð greinin þín í Mogganum :) Alveg sammála þér.

Jónsi
17. nóv. 2006

Jáhá!! ég á bara ekki til orð!! hvað varð um kurteisið og mannasiðina? Afgreiðslufólkið áttar sig kannski ekki á að fólk eins og þú ert að borga launin þeirra!? asnaleg framkoma, og til skammar, ég myndi tala við yfirmanninn og kvarta, svona á ekki að líðast.

Gaman að sjá þig um helgina, greinin var góð, sushið var líka ágætt :) hlakka til að sjá ykkur Joe sem fyrst. kisskiss

Elfa Dröfn Stefánsdóttir
12. des. 2006

Sæl Sigrún, ég rakst á síðuna þína í kommentum á bloggi á mbl.is. og fann mig knúna til að segja nokkur orð, bæði sem kaffbarþjónn hjá Te og Kaffi og fyrrverandi starfsmaður á Vor.

Te og Kaffi seldi kaffihúsið á Laugaveginum nú í sumar og tóku nýjir eigendur við í ágúst. Þessi tvö fyrirtæki eru algjörlega ótengd.

Staðurinn heitir núna Vor og leggur meiri áherslu á ferskan og góðan mat ásamt því að vera kaffihús og ég mæli með matseðlinum. Þá er það á hreinu :)

Það er engan veginn hægt að ætlast til þess að fyrirtæki taki við afsláttarkorti sem það gefur ekki út sjálft. Ekki færi maður með afsláttarkort frá Ikea í Habitat eða öfugt?

Á hinn bóginn skil ég vel gremju þína sem viðskiptavins sem gerir sér ekki grein fyrir breytingunum sem orðið hafa. Þær voru síður en svo áberandi, en ekki er hægt að sakast við starfsfólk hvað það varðar. Starfsfólk, íslenskt sem erlent, vinnur eftir settum reglum og hefur ekki leyfi til að gefa vöru sem það á að selja.

Í upphafi breytinga, í ágúst og september, var starfsfólk duglegt að segja fólki frá breytingunum og jafnvel gata klippikort og gefa síðasta fríbolla ef þannig stóð á.

En þegar komið er fram í nóvember eða desember og nokkrir mánuðir liðnir frá eigendaskiptum er málunum aðeins öðruvísi háttað.

Það eru takmörk fyrir öllu og ekki hægt að gefa sjénsa og taka við kaffikortum frá Te og kaffi í marga mánuði þó svo sá staður hafi verið þarna fyrir. Það hlýtur hver maður að sjá.

Ps. Ég hef annars oft gaman af skrifum þínum og er hrifin af uppskriftunum á síðunni. Að sjálfsögðu máttu hafa þína skoðun. Það er bara ansi erfitt, þegar maður þekkir vel til staðarins og starfsfólksins sem um ræðir, að lesa svona neikvæða umfjöllun á opinni síðu sem mörg hundruð manns lesa, án þess að segja orð til varnar.

Kær kveðja, Elfa Dröfn Stefánsdóttir

CafeSigrun.com
12. des. 2006

Halló Elva

Jamm alveg sammála, ekki hægt að gefa endalausa sénsa.

Ég hefði samt tekið klippikort með einu gati eftir (eins og í mínu tilfelli)...til áramóta og miðað við þann tímapunkt. Það gefur auga leið að tryggur og ánægður starfsmaður er það allra mikilvægasta fyrir fyrirtækið.

Sem starfsmaður hefði ég líka spurt einhvern 'yfir mér' út í þessi mál til að vera viss. Stúlkan sá að ég var svekkt (ekki reið) og var alveg sama. Það pirraði mig.

Takk samt fyrir kommentið, alltaf gott að sjá allar hliðar á öllum málum :) Líka gott að starfsfólk hefur hlýhug til fyrirtækis :)