Algjör

Já við erum algjör. Við vorum á ferðinni í gær í góða veðrinu (sól en reyndar bara 5 stiga hiti). Við ákváðum að kíkja á markað og kaffihús sem Jóhannes hafði fengið upplýsingar um. Markaðurinn var aðallega matarmarkaður, staðsettur í Hackney hverfinu í London. Maturinn sem var á boðstólum var svo sem eins og maður sér á öllum mörkuðum, heimabakaðar kökur, ólífubrauð, ostar, kryddaðar ólífur og þar fram eftir götunum. Það var enginn 'RAW' matarstandur (hráfæði), hefði alveg viljað svoleiðis. Þó ég sé nú ekki í hráfæðispælingum þá finnst mér maturinn (ef ég kemst í svoleiðis) mjög fínn. Jóhannes var hins vegar ánægður með kaffið sem hann fékk á kaffihúsinu. Svo ánægður reyndar að hann keypti baunir hjá þeim og fékk sér tvo espressoa. Einn inni á staðnum og annan á markaðnum sjálfum.

En já, fyrst við vorum "í nágrenninu" eða þannig sko (lesist 20 mínútna strætóferð) þá ákváðum við að fara á einn af uppáhaldsstöðunum okkar Gallipoli sem er tyrkneskur. Við komum reyndar við í bókabúð og vorum þar heillengi bara að lesa og skoða (og kaupa) bækur. Eins og ég hef áður sagt þá fær maður snilldarmat á Gallipoli og alls ekki dýran. Ef þið eruð á ferðinni nálægt Angel lestarstöðinni í Islington (á Northern Line, svörtu línunni) þá mælum við eiiiiiindregið með honum. Staðurinn er svo vinsæll að hann er á 3 stöðum á sömu götunni (Upper Street), með nokkurra húsa millibili. Það er allt troðið af fólki og drasli og ótrúlega kósí. Mælum með Mezze í forrétt (sem er reyndar svo stór að maður nálgast það að verða saddur) og grænmetis Moussaka er snilld. Það er hægt að fá djúpsteikt fallafel og samosur sem eru mjög óhollar en flest á matseðlinum er mjög hollt (grillað eða bakað) og auðvitað allt ferskt. Margir grænmetisréttir eru í boði ásamt kjúklingi, nauti, lambi o.fl. fyrir þá sem vilja kjöt. Eitthvað fyrir alla. Það er best að fara snemma því staðurinn verður algerlega troðinn upp úr 8 leytinu og það er yfirleitt mikið stuð á gestum, tónlistin í botni og fólk fer jafnvel að dansa upp á borðum. Okkur finnst betra að borða í kyrrð og við förum því alltaf helst fyrir 7. Magnaður staður.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It