Corrour ferðin

Séð yfir Loch Ossian, ekki amalegt útsýni þetta.

Skotlandsferðin okkar (ganga í hálöndunum) var dásemleg. Jú við sváfum illa í næturlestinni og jú það rigndi eldi og brennisteini á sunnudagsmorgninum en á laugardeginum var svo gott veður að við vorum að spá í að flytja bara í hálönd skotlands og búa þar bara. Landslagið er bæði mjög líkt íslensku náttúrunni og mjög ólíkt. Svo líkt að við fundum krækiber, aðalbláber og hreindýramosa!!! Ólíkt að því leytinu til að þarna eru skógar og engir jöklar.

Við tókum næturlestina til Glasgow á föstudagskvöldinu og byrjuðum morguninn á kaffibolla sem við keyptum á Starbucks á lestarstöðinni. Get ímyndað mér að það sé nokkuð svalt þarna á veturna, þykk þoka lá yfir bænum, mjög spúkí allt saman.

En já við tókum svo lestina þaðan sem sagt til Corrour sem margir þekkja úr myndinni 'Trainspotting'. Lestarstöðin er alveg í rassgati. Það er lestarstöð (bed og breakfast og smá veitingastaður sem kemur við sögu síðar í umfjölluninni en annars ekki neitt annað, bara fjöll, vatn og mýri). Við komum á Corrour eftir mjög skemmtilega lestarferð, útsýnið var flott og við vorum tilbúin í allt.

Við runnum eiginlega á lyktina.....það sem við vissum ekki var að á þessu litla veitingahúsi var að finna svo góðan mat, eldaðan frá grunni af vasklegri konu að nafni Beth. Hún rak staðinn eins og kjarnorkukvendi sæmir. Eftir að hafa dáðst að matseðlinum (margir réttir fyrir grænmetisætur) þá stóðst ég ekki freistinguna og fékk mér hafragraut og tebolla, mmmmmmmm. Það er ekkert betra start fyrir svona göngu. Jóhannes fékk sér kaffibolla (pressukönnukaffi, ekkert instant drasl hér).

Eftir góða máltíð var okkur ekki til setunnar boðið og við örkuðum af stað í sól og blíðu. Svo mikilli sól reyndar að ég sólbrann á vörunum og í andlitinu :) Það var allt í lagi.

Við gengum með fram vatninu Loch Ossian, í gegnum skóginn (sáum íslenska hesta og heilsuðum aðeins upp á þá, ég get svarið að þeir skildu okkur he he) og ætluðum að fara yfir ána til að halda áfram. Sem betur fer gerðum við það ekki. Það rigndi svo mikið um nóttina og saklausa áin var orðin að beljandi stórfljóti sem við hefðum aldrei komist yfir. Við héldum áfram upp hæðina og gengum um 2 kílómetra í viðbót í blautri mýri þangað til við komum á hið fullkomna tjaldstæði. Rennandi vatn, þurr grasbali (eini þurri bletturinn á svæðinu), geggjað útsýni og sól. Lífið er stundum fullkomið.

Við elduðum holla súpu með kúskúsi, fengum okkur kaffi og með því og vorum nokkuð sátt bara. Þetta hefði ekki getað verið betra. Við fórum frekar snemma að sofa þar sem hvorugt okkar hafði sofið vel í lestinni. Síðast þegar við vorum í svona næturlest var það á milli Nairobi og Mombasa í Kenya. Það var fyndið að bera þessar tvær ferðir saman. Kenya Railways er með meira pláss en FirstScot Rail lestarnar, þeir mega eiga það :)

Daginn eftir var veðrið álíka glatað og það hafði verið frábært deginum áður! Það rigndi og rigndi og rigndi og rigndi. Svo rigndi aðeins meira. Það var líka rok. Við ákváðum að bíða aðeins eftir því að veðrinu slotaði og það var mjög gáfulegt hjá okkur því þegar við lögðum af stað aftur, hafði stytt upp. Við pökkuðum dótinu okkar saman (tjaldið rennandi blautt og lak smá í fortjaldinu, þurfum að skoða það en vorum að öðru leyti skraufaþurr enda vel gölluð).

Við örkuðum niður fjallið aftur (hrikalega blautt) og þurftum að hoppa á milli polla, skurða, mýrarpytta og lækja. Áin var orðin hrikaleg eins og áður sagði og við hefðum ALDREI komist yfir hana. Við ákváðum að ganga í kringum vatnið þ.e. klára hringinn sem við og gerðum. Það var mjög skemmtilegt. Við sáum meðal annars sænskan nútímakastala (einhver forrík sænsk kona lét smíða fyrir sig nútímakastala með turnum og glerspírölum og m.a. barnaherbergi með 17 rúmum, klifrugrindum og ég veit ekki hvað). Allt voða kalt og grátt, steinn, stál og gler og inn í því er það víst svipað (sagði Beth á Corrour Station okkur), allt hvítt nema gólfteppin grá. Mjög sérstakt og ekki alveg það sem maður býst við að sjá svona inni í miðjum skógi í skosku hálöndunum. Þarna var líka bátaskýli og ýmislegt furðulegt en voða flott allt saman.

Við gengum áfram og fórum smá aukatúr upp í gegnum skóginn til að leita eftir tjaldstæði fyrir nóttina. Það reyndist ekki séns að tjalda þar sem allt var á floti og í raun var allt undirlagt í mýri (þess má geta að þetta svæði af hálöndunum er kallað "the Moors" eða mýrarnar, nafn með rentu). Við ákváðum að ráða ráðum okkar, setjast aðeins niður og ákveða næstu skref. Það var mjög spes að sitja inni í miðjum skógi og heyra í hreindýrunum öskrandi (mjög spúkí hljóð). Þetta var æðislegt.

Við vorum bæði farin að hugsa ansi sterkt til hennar Beth, góða matarins hennar, tesins og kaffisins og ákváðum eiginlega bara að skoða möguleikann á því að fá gistingu. Það var annað hvort að gista í fallega skálanum (Youth Hostel) við vatniið eða athuga með gistingu hjá Beth. Við ákváðum að labba alla leið á stöðina og spjalla aðeins við hana. Það reyndist ekki hægt að fara frá Beth. Þegar við sáum matinn sem eitthvað annað fólk var að borða ákváðum að við vildum fá að borða líka. Sko málið var að við vorum alveg tilbúin til að tjalda aftur en það var ekki hægt þar sem allt var á floti. Við fengum því herbergi með morgunmat (ekta skoskum hafragraut og muesli) og ákváðum að fá okkur Chili non Carne (grænmetisréttur með grjónum, baunum o.fl) í kvöldmat. Hriiiikalega gott og allt heimagert auðvitað. Smá "svindl" kannski en við sáum ekki eftir þessu.

Við vorum því södd og sæl og eiginlega einum of södd, ákváðum meira að segja að minnka magamálið aðeins og fengum okkur göngutúr eftir kvöldmatinn :)

Herbergin voru hrein, ódýr (44 pund fyrir herbergi með baði og morgunmat) og allt var tipp topp. Það eru ekki nein sjónvörp heldur bara kyrrð og bækur (fullt af bókum). Útsýnið var ekki amalegt úr glugganum heldur. Við sváfum bæði eins og ungabörn.

Morguninn eftir pökkuðum við dótinu okkar og stukkum í morgunmat til Beth. Við spjölluðum heillengi við hana og svo lengi að hún þurfti að reka okkur út því við vorum að missa af lestinni. Hún sagði okkur frá landinu, að þau hefðu verið að taka við rekstri á staðnum (sem leit frábærlega vel út bæ ðe vei), umferðinni í gegnum stöðina (19 þúsund manns á ári), frá Trainspotting liðinu (sem 'safnar' myndum af lestum) og mikilvægi þess að bjóða ekki upp á drasl mat heldur að útbúa hann með ást og umhyggju...frá grunni. Brilliant.

Við héldum af stað til Glasgow, fengum okkur kaffisopa (var smá seinkun) og héldum svo áleiðis aftur til London.

Þetta var frábær ferð nema okkur klæjar í puttana yfir því að fara aftur. Hver veit hvenær og hvert við förum næst en eitt er víst.....við mælum með Skotlandi!!!

P.S. Myndir frá ferðinni koma fljótlega, læt vita.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It