Köben

Jæja þá er vel heppnaðri Köben ferð lokið. Það var kominn tími til að rifja upp Köben enda 13 ár síðan ég kom síðast. Við vorum í faðmi fjölskyldu Jóhannesar þ.e. mömmu hans, Þorvaldar, Sigrúnar Erlings systur Jóhannesar, Erlings sonar Sigrúnar Erlings en Sólrún systir Erlings og Gunnar voru fjarri góðu gamni þar sem Sólrún greyið var lasin. Við gistum á Cab Inn Skandinavia sem var alveg prýðilegt. Ódýrt en hreint (alltaf góð blanda) og með ágætum morgunmat (muesli, osti og grófu brauði). Herbergin eru pínkupons en hver er svo sem að hanga á hótelherbergi í útlöndum (nema maður sé lasinn).

Við gerðum margt skemmtilegt. Við fórum í siglingu, fórum á flotta grafíksýningu í Sívala Turninum (langaði í nokkrar myndir), í Tívolíið, gengum allar hliðargötur Striksins (nánast), prófuðum milljón kaffihús, m.a. Baresso, Mamma Mokka og Estate þar sem núverandi heimsmeistari kaffibarþjóna er að vinna. Á Estate er einnig að finna Þóreyju frá Kaffitári svo Estate er í góðum höndum, ekki hægt að segja annað. Jóhannes tók út alla kaffibollana og það er fyndið að í London, Kaupmannahöfn og Reykjavík þekkja kaffibarþjónar mann með nafni og geta búið til drykkinn manns án þess að maður segi orð. Það er sérstaklega furðulegt að upplifa það í London þar sem 8 milljónir búa en líka spes í Köben (meira að segja þó að Íslendingur sé ekki að afgreiða mann). Það var gaman fyrir Jóhannes að geta spjallað við kaffibarþjónana og hann keypti einn poka af blöndunni sem heimsmeistarinn notaði í síðustu keppni. Verður spennandi að prófa.

Við fórum ekki í margar búðir enda er ég ekki þekkt fyrir þolinmæði í búðum og svo höfum við líka nóg af búðum í London svo sem. Við prófuðum nokkra grænmetisstaði sem voru prýðilegir. Fórum til dæmis á Græna Kjallarann (Den Grønne Kælder), á Flow og á Riz Raz (sem var reyndar hlaðborð og við fílum yfirleitt ekki hlaðborð). Það var gaman að prófa þessa staði og ég mæli sérstaklega með Græna Kjallaranum enda miðsvæðis, góður matur og alveg prýðilegt hráefni þó þeir mættu baka buffin sín í staðinn fyrir að steikja þau upp úr olíu. Við fórum líka á Hereford Steikhúsið í Tívolíinu enda var öll fjölskyldan með og fæstir í grænmetispælingum. Það var í góðu lagi enda er alltaf hægt að finna eitthvað fyrir fólk sem ekki borðar kjöt (þeir eru með fínt salatborð).  

Eitt sem ég furðaði mig samt á. Í öllum þessum götum sem við löbbuðum var ekki ein einasta heilsubúð (svona Yggdrasill) sem mér fannst furðulegt. Svo sem ekkert skrýtið kannski þar sem Danir eru að drepa sig á reykingum. HVENÆR ÆTLAR ÞESSUM HÆGFARA ÓBEINU MORÐUM AÐ LINNA????? Meiri andskotans, djöfulsins viðbjóðurinn. Það sem ein sígaretta getur mengað er FÁRÁNLEGT. Eitt dæmi: Á grænmetisstað þar sem maður hefði búist við að fólk væri aðeins að hugsa um heilsuna voru tvær konur (sem voru að afgreiða) að reykja og það ofan í ÓLÉTTRI KONU. Það hlýtur að vanta í heilasellurnar á fólki, í alvöru talað.

Tívolíið er alltaf jafn skemmtilegt, við fórum í 3 rússibana og eina hringekjurólu (ef er hægt að kalla hana það), og er hún sú hæsta í heimi (heitir Himmelskibet eða Himnaskipið). Eitthvað nýtt apparat sem er í 80 metra hæð með rólur hangandi í mjóum keðjum og svo snýst þetta í hringi. Jesús kristur. Ég hef aldrei orðið eins hrædd/lofthrædd á ævinni. Ég braut ÞRJÁR neglur á upphandleggnum á aumingja Jóhannesi og hann var með göt eftir neglurnar á handleggnum. Ég lokaði augunum og pírði öðru hvoru í gegnum smá rifu en mér varð hreinlega illt úr hræðslu. Ég er ekki sérlega lofthrædd en ég hélt ég myndi deyja þarna uppi, virkilega deyja. Sigrún systir Jóhannesar var sama sinnis. Ef ég hefði bara verið með Jóhannesi hefði ég sennilega farið að grenja en þar sem 10 ára frændi hans var með í för þá gat ég nú ekki gert það.

Rússibanarnir voru skemmtilegir en ég er samt skíthrædd í þeim. Dímoninn (tengill yfir í myndband fyrir þá sem þora) er í 20 metra hæð þar sem hann er hæstur og er með 3 lykkjum (einni alveg í 360° hring). Þetta er svona ást/haturssamband þ.e. ég er skíthrædd við þá og langar ekkert að fara....en á sama tíma horfi ég aðdáunaraugum á þá og langar alveg ótrúlega mikið og verð öll æst. Ég lamast næstum því úr hræðslu þegar ég fer af stað....þegar rússibaninn er að klifra upp á topp og blússar svo niður á fleygiferð þá hata ég sjálfa mig fyrir að láta hafa mig út í þetta (en get bara kennt sjálfri mér um því ég mana sjálfa mig áfram). Eg fæ svona máttleysistilfinningu í magann og þó ég vildi það þá gæti ég ekki einu sinni sagt nafnið mitt því ég er í krampa allan tímann úr hræðslu (eða spenningi, veit ekki). Það versta? Krakkar yfir 130 cm mega fara í þetta tæki. Krakkar í 130 cm hæð eru SMÁBÖRN?????? Ég að kúka á mig og einhverjir smápúkar að flissa því þeim finnst þetta eiginlega fyndið. Annars var trérússibaninn eiginlega verri.

Elsti starfandi trérússibani heims, Rutschebanen er í Tívólíinu í Kaupmannahöfn. Það er met sem er ekkert sérlega hughreystandi. Ég held að mér hafi þótt hann verri en Dímóninn því í honum er maður kyrfilega fastur og haggast ekki. Þessi er voðalegur, hann fer upp og niður og upp og niður svo aumingja maginn minn er í krampa allan tímann. Þegar rússibaninn var að klifra upp í byrjun hélt ég að ég myndi deyja úr hræðslu og mig langaði út úr honum en það er víst ekki hægt :(

Við ætluðum að prófa miklu fleiri tæki en það kom svo mikil úrhellisdemba (og þá er ég að meina ALGERT skýfall) að við þurftum að flýja holdvot frá toppi til táar inn á næsta kaffihús og fá smá hlýju í kroppinn. Það var reyndar bara kósí en hefði verið skemmtilegt að geta prófað meira. Den næste gang bara.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Sólveig S. Finnsdottir
29. ágú. 2006

það þarf mikið að ganga á til að ég fari í svona hryllingstæki, svo þú ert MJÖG huguð að fara í þessar vítisvélar.

kv mamma.