Pizzastaður og Bændamarkaðurinn

Helgin var róleg. Við prófuðum nýjan stað síðastliðinn föstudag sem hét Fire and Stone. Eiginlega svona 'fínn' pizzastaður en samt með sallöt og fleira. Þeir eru með pizzur frá ýmsum hornum heimsins eins og asískar, ástralskar, evrópskar og amerískar. Pizzurnar voru fínar og staðurinn skemmtilegur. Mælum alveg með honum. Við fórum svo og fengum okkur kaffi auðvitað eins og við gerum alltaf um helgar, fórum í ræktina og í gær fórum við á Farmers' Market á Marylebone High Street (á bak við Waitrose). Það er rosa fínt að fara þangað. Bændur koma sjálfir með afurðir sínar og selja á góðu verði. Stórsniðug hugmynd (svipað og er gert í Mosfellsdalnum heima held ég). Svona styrkir maður afbragðsgæði, án milliliða. Þarna má finna osta, brauð, hunang, kökur, grænmeti og ávexti (en fer eftir árstíð hvaða grænmeti og ávextir eru í boði). Bændurnir standa sjálfir við borðin með rósrauðar kinnar, breiða handleggi og úfið hár. Við eigum örugglega eftir að fara aftur. Ef við værum á bíl eða ættum heima aðeins nær (erum 15 mín að labba) þá færum við líklega um hverja helgi. Það er bara erfitt að rogast með þunga poka langa leið.

Jóhannes var svo í grilli í gær hjá yfirmanni sínum í Disney og ég fór í ræktina á meðan og þurfti að vinna aðeins. Sem sagt allt í rólegheitunum fyrir utan gærkvöldið þegar Ítalir keyrðu fram hjá húsinu aftur og aftur og aftur með flauturnar í botni. Af hverju þarf að flauta bílflautu og garga um miðja nótt ef landið manns vinnur í fótbolta?

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It