Hitabylgja á leiðinni

Það stefnir íenn eina hitabylgjuna þessa viku. Það er spáð allt að 29 stiga hita (sem er svona 32-34 stiga hiti í raun í miðborginni). Það verður sama sagan. Ógeðslegt loft, mengun, hitasvækja, sveittar rasskinnar, fólk í yfirliði, lestarnar við það að gefa upp öndina, gamalt fólk sem hrekkur upp af, bann við grilli (vegna aukinnar mengunar), bann við vatnsnotkun nema í neyð, svínin verða böðuð upp úr sólarolíu og allt þetta sem London krefst þegar er svona heitt. Það er ágætt að sitja inn á lofkældri skrifstofu (ekki mjög umhverfisvænt samt) en það er önnur saga heima í íbúðinni. Aumingja viftugreyið fær að finna fyrir því og puðar alla nóttina. Það er reyndar enginn raki í þessum hita svo þetta er alveg bærilegt. Ég man að fyrst þegar við fluttum til Bretlands, 2001 þá komu svona 1-2 hitabylgjur frá maí og fram í september. Þær stóðu mun styttra yfir eða í svona 2-3 daga ef ég man rétt. Frá 2003 hins vegar hefur bara verið heitt, heitt, heitt nánast allt sumarið.

Þá er bara að taka fram stuttu buxurnar og sumarskóna. Vildi að ég gæti sent smá sól til Íslands. Það er komið alveg ágætt í bili af sólinni, mætti alveg vera skýjað í smá tíma. Það nefnilega skiptir engu máli hvort er sól eða ekki hér í London því það verður enginn brúnn. Manni verður bara heitt. Mengunin er svo mikil að maður tekur ekki einu sinni lit. Maður roðnar ekki einu sinni. Í sambærilegri sól í Danmörku væri maður orðinn vel bakaður og brúnn.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Sólveig S. Finnsdottir
10. júl. 2006

hæ segi bara það komið þið heim !!! hér er ekki óbærilegur hiti þó hafi verið 15 st hiti í gær er alltaf hægt að fara smá golu og golan var fin til að kæla sig en semsagt heima er best !! kv m