Af mini-tónleikum, heimagerðum íslatte og sólbaði á flugvelli ásamt köfun í fiskabúri

Já þetta var skemmtileg ferð til Árhúsa síðustu helgi. Við heimsóttum sem sagt Sigrúnu og Freysa og Mána. Við vorum í í góðu yfirlæti og var stjanað við okkur út í eitt. Ég fékk t.d. afar góðan íslatte hjá Freysa (sem er að ná upp góðri færni í kaffigerðinni) og Jóhannes var nokkuð sáttur við sinn espresso hjá kallinum. Við fórum út að borða á ítalskan stað, fengum góðan grillmat hjá hjúunum og smökkuðum alveg helling af kaffihúsum. Svo fóru strákarnir að kafa í fiskabúri líka. Þið getið lesið nánar um það hjá Jóhannesi. Við borðuðum líka fleiri kíló af dönskum jarðarberjum. Þau eru bestu jarðarber í heiminum, ég var búin að gleyma hversu góð þau eru.

Við áttum svo að vera komin hingað mánudagsmorgun en vorum komin mánudagskvöld. Ástæðan fyrir því var að Ryanair (sem er skíta, skítaflugfélag og ætti að vera á svörtum lista (hefur fengið öryggisviðvaranir sko)) var með bilaða vél og þurfti að sækja flugvirkja eða álíka til að laga hana. Þessar flugvélar eru svo miklar dollur að ég er hissa á að hún hafi þó drifið aftur til London. Maður Á ekki að versla við þá. Fyrir utan það að þeir fara illa með starfsfólk þ.e. launalega og réttindalega séð og fyrir 5,5 tíma töf var ekki einu sinni boðið upp á kaffi í vélinni (sem þarf hvort eð er að borga fyrir annars). Við fengum ekkert að borða á flugvellinum í boði Ryanair og þó að samlokurnar hafi verið ferskar og frábært sé að geta keypt ávexti þá áttum við ekki að þurfa að borga fyrir það sjálf sko. Skítur og skömm, oj bara.

Það væsti nú svo sem ekki um okkur þarna á flugvellinum í Árhúsum. Hann er sennilega sérkennilegasti flugvöllur Evrópu og þó víðar væri leitað. Samtengt biðsalnum er 'aldingarður' með litlum læk, trjám, bekkjum og þar er opið undir bert loft svo þetta er líklega eini flugvöllurinn þó víðar væri leitað sem getur boðið upp á fuglasöng og lækjarnið. Verulega furðulegt en um leið notalegt.

Nú við settumst bara út í sólina og svo vildi til að ein af þekktari hljómsveitum Bretlands í dag, Kaiser Chiefs var akkúrat strandaglópur líka. Það var því jammað með Kaiser Chiefs á flugvellinum þar sem þeir glömruðu á gítar, drukku bjór og dingluðu fótunum í litla læknum. Með þeim var írsk stelpa sem var flink á trommur. Held hún hafi nú ekki tilheyrt hljómsveitinni þar sem hún var á ferð með fjölskyldu sinni (það voru 6 stykki af krökkum og þau voru öll eins). Þeir voru nú ekki með neina stjörnustæla. Við stóðum nú beint fyrir aftan þá lungann úr tímanum sem við vorum í röðinni og þeir voru spakir. Þeir renndu samt hýru auga til einkaþotunnar sem þeir sáu þegar við vorum að fara um borð í flugvélina. Hafa eflaust hugsað 'bráðum, bráðum'.

Hitinn var mikill í garðinum og mig var farið að langa alvarlega í kaldan drykk, helst íslatte (enda orðin góðu vön hjá Freysa). Þar sem ekki var nú toppkaffihús á flugvellinum þurfti ég að bjarga mér. Keyptur var latte úr vél (vondur), í honum var sturtað hálfu bréfi af sætuefni sem ég átti í töskunni minni og þar ofan í fór ein ferna af ískaldri mjólk. Það voru ekki til neinir klakar hins vegar. Þetta þurfti því að duga í bili.

Það er annars allt búið að vera að bráðna í London. Hitinn hefur verið ógnarlegur á köflum og allt að gefa sig. Lestarteinarnir bráðna eins og venjulega í þessum hita, það er að líða yfir þúsundir og einhverjir hrökkva upp af, fólk er að fá hitasjokk í lestunum, köldu vatni er dælt úr Thames til að reyna að bæta ástandið í lestunum (leitt eftir pípum til að kæla), svínum í sveitinni er nuddað upp úr sólarvörn svo þau verði ekki að stökku beikoni (án gríns), enginn má vökva né nota vatn í annað en tannburstun og niðursturt og fólk er varað við því að fara út fyrir hússins dyr. Þetta á eftir að versna næstu árin víst. Vei.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It