I'll have one Sigrun please

Mér finnst algerlega magnað að í 8 milljón manna borg eins og London er nú, að í miðri London muni starfsfólk á kaffihúsum eftir manni. Það segir tvennt. Það er góð þjónusta á Starbucks (hún er virkilega góð eins og ég hef oft minnst á áður) og við förum allt of oft á kaffihús (ok ok við förum líka á Vergniano sem er uppáhaldsstaðurinn hans Jóhannesar, hann er ekki að fíla Starbucks eins og ég). Við förum mjög reglulega á Starbucks inn í Soho og þegar Jóhannes ætlaði að panta síðast, espresso fyrir sig og latte (flókinn) fyrir mig þá leiðrétti afgreiðslukonan hann og sagði "nei hún vill sykurlaust vanillusíróp" he he. Í dag fór ég á Starbucks á Goodge street í hádeginu og afgreiðslumaðurinn (þó að séu margir mánuðir síðan ég fór á þennan stað síðast) mundi alveg eftir mér og að ég vildi soyalatte og svoleiðis. Hann spurði mig líka hvar ég hefði haldið mig. Sko ég skil alveg að þær á Kaffitári séu farnar að skrifa einn "Sigrún" á miðana sína í staðinn fyrir alla rununa en í stórborg eins og London er, er það ekki eins sjálfsagt að muna eftir "Tall, decaf, soylatte, with sugar free vanilla, dry and extra hot....  Við förum líka sorglega oft á kaffihús he he. London er reyndar svo miklu, miklu minni og persónulegri borg en maður heldur þegar maður hefur búið í henni (eins og með allar stórborgir reyndar örugglega). Hún er alls ekki ógnvekjandi eða stressandi, þvert á móti hefur hún róandi áhrif á mann með öllum sínum gömlu byggingum, gróðri og sögu. Það er engin borg í heiminum sem státar af jafn miklu af grónum svæðum eins og London. Eitthvað sem gleymist þegar er verið að tala um hvað London er skítug og köld. Loftið er orðið hreinna en það var (færri bílar), það er mikið um opin, græn svæði (parks) og það er alltaf verið að týna upp rusl alls staðar.

Við prófuðum annars Thailenskan stað sem heitir Busaba inn í Soho síðustu viku (fann engan link á heimasíðu). Hann var ágætur en Shri Thai er miklu betri. Sömu eigendur og að Wagamama enda svipaður fílingur nema dýrari auðvitað. Ástæðan fyrir því að við ákváðum að prófa staðinn er að í hvert EINASTA skipti sem við löbbum fram hjá staðnum er biðröð, vetur, sumar, vor og haust, í rigningu, roki, sól, þoku, hagléli. ALLTAF er röð af fólki til að bíða eftir því að komast inn. Staðurinn er nú ekki svo lítill sko.

Við ætlum annars að fá okkur að borða í kvöld eins og við gerum oft á föstudagskvöldum eftir vinnu og aldeilis ekki dýrt. Við ætlum á hummus stað sem við löbbum oft fram hjá í Soho. Held að þetta sé snilldarstaður. Læt vita hvernig hann verður.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It