Allt stíflað

Jæja þá eru gestirnir farnir og ég held að hver einasta búð í allri London hafi fengið að finna fyrir kauporku mæðgnanna. Staða krónunnar hefur líka veikst gagnvart pundinu síðustu daga! Þær voru nú ekki bara að versla, Sigrún S bauð okkur út að borða m.a. á Archipelago (staðurinn með kengúrukjötinu og súkkulaði sporðdrekunum) og það var rosa fínt. Þær mæðgur voru ánægðar með staðinn og ég held að þetta sé að verða uppáhaldsstaðurinn okkar Jóhannesar. Allavega sá staður sem við myndum fara á hérna í London til að borða góðan mat og hafa það notalegt.

Það er allt gott að frétta annars nema ég er búin að næla mér í kvef og er með kolstíflað nef. Það er alls ekki nógu gott því ég má ekki vera með kvef eða á annan hátt lasin þegar ég fer í aðgerðina á fimmtudaginn. Ég verð því að vera búin að ná þessu úr mér í kvöld, annars þarf ég að láta vita. Það er ekki glæta hins vegar að ég ætli að fresta þessu þannig að ég verð þá bara að fela kvefið. Ég vona bara að ég fái ekki í hálsinn líka því það er erfiðara að fela hósta og hálsbólgu en kvef. Leiðinlegt fyrir hina sjúklingana samt ef ég smita þá. Skiptir svo sem engu máli, skilst að spítalinn verði nánast tómur sko hvort eð er.

Við fórum í jólagjafaleiðangur í gær, held að sé nánast allt komið. Ekki glæta að ég nenni að kaupa jólagjafir í London á hækjum he he. Við eigum eftir að kaupa smotterí og svo nokkra pakka á Íslandi. Kannski að ég skrifi jólakortin í kvöld ef ég hef tíma!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Sólveig Finnsdóttir
06. des. 2005

Viltu fara vel með þig og biðja Jóhannes að bera þig upp stigana eftir aðgerðina, kannski við verðum saman um jólin á hækjum ég nota hækju alltaf annað slagið en gleymdi henni hér þegar ég fór til Svans því miður er svo að drepast núna. Gangi þér vel kv mamma.