Ljósmyndarinn sem var reyndar arkitekt

Já munið þið eftir ljósmyndaranum (og pabba hans, orustuflugmanninum) sem tók mig tali í flugvélinni á leiðinni til London frá Íslandi síðast? Hann hefur sem sagt haldið sambandi síðan hann kom til London og við hittumst í gær. Ég, Jóhannes og ljósmyndarinn hittumst á kaffihúsi og spjölluðum, aðallega um ljósmyndun og Ísland. Hann tók margar ofsalega fallegar myndir af Íslandi og ætlar meira að segja gefa okkur "limited edition" mynd sem hann ætlar að selja í framtíðinni. Hann ætlar að vera með heimasíðu þar sem hann selur þessar myndir. Hann var með hana í bílnum en gleymdi að láta okkur fá hana (ætlar að senda hana). Það verður gaman því við erum búin að sjá myndina sem hann ætlar að gefa okkur. Myndin er af Eyjarfjarðará og er eins og hún sé tekin í svart hvítu en er samt í lit.

En já ég sem sagt hélt að maðurinn væri ljósmyndari enda sagði hann í flugvélinni að hann væri að taka ljósmyndir á Íslandi og það hefði verið aðalástæðan fyrir þessari ferð sem og fleirum. Svo kemur í ljós að maðurinn er ekkert ljósmyndari að atvinnu heldur er hann arkitekt og hönnuður og er með fyrirtæki sem hefur skrifstofur m.a. á Indlandi, í London, Ástralíu, Nýja Sjálandi og á fleiri stöðum. Hann hefur hannað byggingar og innvols út um allan heim. Hann hlýtur að vera ágætlega efnaður því hann á íbúð í Ástralíu, við strönd sem hann notar í fríinu sínu, sem og íbúð á Englandi. Hann á líka nýjustu týpuna af Porsche Boxter sportbíl sem er ekki ókeypis. Tímann í fríunum sínum notar hann til að taka ljósmyndir neðansjávar, sem og landslagsmyndir og svo selur hann þær. Hann sem sagt er að lifa lífinu okkar, bastarður :)

Nei nei það er alltaf gaman að hitta nýtt fólk, sérstaklega fólk sem talar fallega um Ísland :) Við ætlum að reyna að hitta hann aftur til að taka myndir með honum, fá svona tips eins og hann gaf okkur í gær varðandi ljósmyndun og svoleiðis, alltaf gagnlegt þar sem við höfum áhuga á því að þramma um fleiri fjöll í framtíðinni og mættum alveg bæta við þekkinguna okkar sko. Hann hefur líka áhuga á að fara til Afríku og ætlar að reyna að koma til Íslands um jólin til að taka vetrarmyndir. Við ætlum líka að skiptast á íbúðum í framtíðinni, í fríunum okkar, við getum verið á ströndinni í Ástralíu og hann getur verið í íbúðinni okkar á Íslandi á meðan (eigum reyndar ekki íbúð eins og er). Hann veit það reyndar ekki enn þá að ég er að plana þetta he he.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It