Bláa tímabilið

Já bláa tímabilið er hafið. Bláa tímabilið er ekkert dónó og ekkert þunglyndi heldur. Bláa tímabilið er einfaldlega haust/vetur hjá Sigrúnu kuldaskræfu. Það þýðir blátt nef, bláar varir, ískaldir, bláir/fjólubláir fingur með hvítum doppum, sultardropar og rauðar kinnar. Alveg sama þó að ég sé dúðuð eins og Pillsbury's best hveitikarlinn. Það er bara eins og líkaminn fari í kuldadvala og svo skelf ég í svona 4-5 mánuði þangað til vorið kemur aftur. Mér er kalt þegar ég vakna, kalt þegar ég fer að sofa og alveg sama í hverju ég sef og þó ég sé með dúnsæng og hitapoka þá er ég eins og grýlukerti. Það verður líka erfiðara að fara fram úr á morgnana því sængin ER bara svo hlý og notaleg, og mjúk, og æðisleg. Að fara í sturtu verður líka pína því mér verður svo viiiiiiiðbjóðslega kalt þegar ég er að þurrka mér þess vegna er ég duglegari að fara í ræktina á veturna, þ.e. ef ég kemst fram úr rúminu fyrir kulda. Þá er ég ekki að meina að ég sé með smá hroll, ég er að tala um að mér líður eins og ég standi í kaldri ferskvatnsá á íslenska hálendinu. Algerlega nístandi kuldi inn að beini sem er eiginlega bara sársaukafullur. Málið er að þetta er vandræðalegt. Við löbbum um einhvers staðar og ég er alltaf sú eina sem er mikið klædd, ég er alltaf sú eina sem er blá í framan og með ískaldar hendur. Meira að segja á Spáni í 35 stiga hita, þá var ég með kaldar hendur. Ég fékk líka blöðrubólgu þegar ég fór í sjóinn á Spáni, í 35 stiga hita. Því mér var SVO kalt.Og alveg eins og Jón Oddur og Jón Bjarni sögðu, þá er ekki hægt að sofna með kaldar tær, það er bara ekki hægt.

Fólki finnst þetta líka afar fyndið hér á skrifstofunni í London, af því ég er sko frá Íslandi og ætti því að vera vön þessu. Það skiptir samt engu máli hvar ég er, Afríku, Íslandi, Spáni, UK. Alltaf sama sagan. Ég þarf líka að gera ráðstafanir áður en ég fer að sofa, vera búin að hlýja náttfötin mín á ofninum og svo aftur áður en ég vakna, þá þarf ég að vera búin að setja fötin mín á ofninn. Ekki séns að ég geti farið í fötin svona köld. Ég hef aldrei getað skriðið undir kalda sæng heldur eins og sumir, hitapokinn þarf að vera búinn að hita sængina mína í einhvern tíma svo ég drepist ekki úr kulda. En já bláa tímabilið er byrjað og þá þarf ég að draga fram:

  • Þykka sokka (bæði til að vera í heima og til að sofa í)
  • Þykk náttföt
  • Dúnsæng
  • Gammósíur
  • Hitapoka (rafmagns auðvitað, maður getur grillað sig út í eitt, þoli reyndar ekki svona öryggisdæmi, slekkur alltaf á sér :( maður á ekki einu sinni grilla í friði)
  • Þykka peysu til að vera í heima
  • Teppi
  • Aukateppi
  • Aukateppi til vara

Held ég flytji til Equador, alltaf eins veðrið þar :(

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Birna frænka
20. sep. 2005

Æ greyið, ertu ekki örugglega búin að prófa allt sem er búið til úr kanínu ull. Það er það hlýjasta sem til er svei mér þá.

Sigrun
20. sep. 2005

Held ég sé búin að prófa allt nema að keyra um í færanlegum heitum potti he he. Ég er bara kuldastrá.

hrundski
20. sep. 2005

Ég sef í dúnskóm með hitapoka. Best er samt að sofa líka með húfu mmmmmmm - verður bara að fara með húfuna í vinnuna daginn eftir því hárið verður eins og á Dýra í prúðuleikurunum, alveg allt útum allt :)