Orustuflugmaðurinn, ljósmyndarinn og ég

Já þetta var bara skemmtilegasta ferð út til London aftur. Ég sat við glugga og við hliðina á mér sat breskur maður um þrítugt og gamall maður með staf. Þegar á leið flugið tók maðurinn mig tali og í ljós kom að hann er ljósmyndari (og arkitekt held ég líka) með skrifstofur út um allt. Sem ljósmyndari tekur hann myndir neðansjávar og af landslagi. Mjög flottar myndir. Hann hlýtur að hafa ágætt upp úr þessu því hann tekur um 15oo dollara fyrir daginn (fyrir utan flug og allt annað sem þarf að borga). Vinnan hefur dregið hann út um allan heim en skemmtilegast finnst honum þó að koma til Íslands. Í þessu tilviki var hann á ferðalagi með pabba sínum (sem er 83 ára) og búinn að keyra nánast allan hringinn í kring um Ísland. Þeir voru eldhressir og pabbi hans þó hann væri 83 var sprækur. Hann var orustuflugmaður í stríðinu og mér fannst það mjög merkilegt því ég hef engan hitt áður sem hefur barist í stríðinu, hvað þá verið orustuflugmaður. Frekar kúl gæi sko.

En já við spjölluðum um heima og geima og sonurinn ætlar að koma til Íslands um næstu jól og áramót kannski, hann langar að skoða Ísland í vetrarbúningi. Kannski að maður reyni að hitta hann og læra eitthvað af honum. Þeim gamla fannst Ísland æðislegt og vildi snúa við þangað bara strax. Þeim fannst líka voða rólegt næturlífið á Íslandi og mjög lítið af drukknu fólki miðað við Bretland. Ég spurði þá hvenær þeir hefðu verið á pöbbarölti og þeir sögðu "svona um 11leytið á föstudagskvöldinu". Mér fannst það hrikalega fyndið og ég sagði þeim að næturlífið væri í gangi frá svona 2-5 um nóttina og fólk væri dauðadrukkið. Það fannst þeim dáldið ótrúlegt. Ég benti syninum á myndina 1o1 Reykjavík til að sjá hvernig Ísland væri á veturna. Ég benti honum líka á Nóa Albínóa. Er nokkuð viss um að hann komi ekki aftur eftir það.

Ég var annars mjög fegin að hafa þá félaga með mér því ég var að bíða eftir að fara út úr vélinni og eins og allir vita þá er yfirleitt dauðaþögn í vélinni þegar maður bíður eftir því að fara út nema eitthvað pínu skvaldur milli fólks. Í þessu tilfelli var ég að tala við feðgana og ég heyrði eitthvað útundan mér, í tóni sem var ekkert sérstaklega skemmtilegur. Þetta voru Bretar, svona dáldið bullulegar og þeir voru að segja ýmislegt dónalegt (um mig) sem ég ætla ekki að hafa eftir hér. Ég var miður mín. Það voru allir farnir að hlusta og taka eftir þessu og að lokum sneri ljósmyndarinn sér við og sagði að þetta væri ekki sérstaklega mikil kurteisi. Þeir þögnuðu eftir það og ég gekk óáreitt með þeim út. Mikið ofboðslega getur verið fólk (karlmenn) verið dónalegt.

En já svo voru þessir feðgar miklir herramenn eins og Bretar geta verið og þegar við vorum að bíða eftir töskunum á færibandinu þá fór sonurinn að ná í töskukerru og ég spottaði töskuna mína (svona miðlungsstóra) á bandinu og ætlaði að fara að ná í hana þegar gamli maðurinn, með stafinn sá hana líka. Nema hvað, hann sá dálítið illa og var seinn á sér, með stafinn og þegar hann ætlaði að fara að taka töskuna mína af bandinu þá var hún löngu komin fram hjá. Ég leyfði honum að sjálfsögðu ekki að taka töskuna af bandinu, ég benti honum á að ég væri íslensk og að íslenskar konur björguðu sér, enda með víkingablóð í æðum.

Já já þetta voru hinir skemmtilegustu feðgar. Ég er ekki mikið fyrir að tala við fólk í flugvél (eða við fólk yfirleitt) en allt í lagi þegar fólk er skemmtilegt. Ég myndi þó aldrei í lífinu segja eitthvað af fyrra bragði.

Væri gaman að hitta ljósmyndarann á Íslandi næst þegar hann kemur. Við verðum örugglega í sambandi við hann allavega.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It