Reykjarlyktin skrítna

Það var nú skrítin nóttin sem leið. Ég vaknaði kl 3.30 síðustu nótt og þá var mig búið að dreyma einhvern að reykja sígarettur í dálítinn tíma. Ég lá milli svefns og vöku og fannst sígarettulyktin skrítin. Svo fór að renna upp fyrir mér að a) þetta var ekki sígarettulykt og b) þetta var inni í íbúðinni. Við þetta glaðvaknaði ég. Lyktin var mjög megn brunalykt en það var enginn reykur. Þetta var svona brunalykt sem kemur af brunnu, gömlu timbri (svona eins og var á Ingólfsstrætinu þegar kjallarinn brann fyrir ykkur sem komuð þangað eftir brunann). Svíðandi lykt sem festist við mann og lætur mann fá tár í augun. Svona lykt sem þarf að reykræsta með jónatæki til að losna við hana. En jæja ég staulast fram í eldhús því mér datt helst í hug að ég hefði gleymt eggjum í potti á eldavélinni (hefur komið fyrir en við vorum nú heima) en nei það var allt slökkt þar. Við bröltið í mér vaknar Jóhannes og staulast á eftir mér inn í eldhús. Á þessum tímapunkti var lyktin orðin mjög megn. Við stungum hausnum bæði út um gluggana til að sjá hvort að væri kviknað í einhvers staðar. Við sáum hvorki eld né neitt annað athugavert. Okkur sýndist við sjá reykjarhulu en það gat vel verið mistur líka því það er búið að vera svo heitt að undanförnu í London og þetta var jú um miðja nótt. Þess vegna voru allir gluggar galopnir og búnir að vera í nokkra daga.

Jóhannes gáði á vef BBC til að athuga hvort einhver frétt væri af eldi í miðborg London en engar fréttir voru varðandi það (maður er svo vanur því heima á Íslandi að ef einhvers staðar kviknar í þá kemur það strax á Moggavefinn en það gengur víst ekki alveg svo hratt fyrir sig í 8 milljón manna borg). En já við gátum lítið gert og ákváðum að fara bara aftur að sofa eftir að Jóhannes var búinn að gá fram á gang og athuga hvort að væri nokkuð reykur eða eldur en nei allt í góðu þar. Við lokuðum þess vegna gluggunum (í þessum hita) og sofnuðum fljótlega aftur.

Það sem vakti smá óhug hjá okkur svona eftir á var að í fyrsta lagi var þetta brunalykt og undir lokin var lyktin orðin eins og að keyra fram hjá danskri pylsuverksmiðju (fyrir ykkur sem ekki hafið reynt það, þá er lyktin ógeðsleg og mér hefur verið tjáð að svipuð lykt komi af brennandi fólki. Sel það ekki dýrara en ég keypti það þó). Mér fannst þetta því frekar óþægilegt. Í öðru lagi þá fannst mér þetta óþægilegt því við höfum verið að lesa um hótanir öfgafullra múslima sem segja að næstu skref hjá þeimverði efnavopnaárás á London (í vatnslindir eða matvæli reyndar) þannig að eftir á að hyggja var þetta óþægilegt og við hefðum sem sé getað verið dauð ef svo hefði verið. En svo var ekki. Sem betur fer. Það hefði verið leiðinlegt því við áttum afar góðan dag í Regents Park í dag í 30 stiga hita og glaða sólskini. Við fórum með kaffi og nesti og bækur og blöð og vorum í um 5 klukkutíma í afslöppun. Þvílíkur lúxus. Í fyrsta skipti sem við erum bæði heima og bæði í fríi í um 3 mánuði!

En já skrítna lyktin frá því í nótt skýrði sig aldrei og við erum engu nær. Vona bara að sé ekki líkbrennsla í næsta húsi!!

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Matthildur
17. ágú. 2010

Ég veit ekki hvað þetta er gömul færsla hjá þér en ég rakst hérna inn af tilviljun, er að gúggla brunalykt en ég vakna stundum við megna brunalykt og tel að það gæti stafað af flogaveiki en það er líklega ekki í þínu tilviki þar sem um eitt atvik er að ræða og þið funduð tvö lyktina. Ég vildi samt skrifa komment þótt það gagnaðist þér líklega ekkert en þá vil ég bara þakka fyrir allar uppskriftirnar sem hafa oft komið sér vel.

Sigrún
17. ágú. 2010

Jiii en magnað. Sem betur fer erum við hraust og höfum ekki fundið þessa lykt aftur!!!!!