Jóhannes heim

Jibbí, Jóhannes kemur í kvöld. Ég hef ekki séð hann síðan á mánudaginn. Svo sem ekkert langur tími en þar áður vorum við ekki búin að hittast í rúma 10 daga á meðan ég var á Íslandi. Það er heldur ekki seinna að vænna að við hittumst, þurfum að fara að skipuleggja Laugaveginn. Við erum búin að kaupa allt nema sólarvörn (verður ekki örugglega sól??? Vonandi, svo lengi sem er ekki grenjandi rigning og rok þá er ég sátt. Við erum búin að kaupa ullarföt fyrir mig og svo á ég varaullarföt. Svo fékk ég dúnsvefnpokann í afmælisgjöf sem verður tekinn út í þessari ferð. Svo erum við líka búin að kaupa svona hitagel til að setja ofan í svefnpokann svo að Borgar og Jóhannes þurfi ekki að grilla steina *roðn*. Já já já, ég veit, ég er kuldaskræfa. Ég labbaði meira að segja aðeins út áðan, það er 27 stiga hiti og smá gola og mér varð kalt???? Það stóð reyndar stutt yfir, mér varð orðið heitt eftir smá stund og ég þurfti að fara í skuggann.

Ég var með næturgest síðustu nótt, Fríðu Maríu sem var að farða fyrir einhverja auglýsingu í Cambridge. Hún framlengdi um einn dag til að versla í London. Það var rosa gaman að fá hana í heimsókn og við fórum og fengum okkur að borða á Sergios sem er ítalskur staður beint fyrir utan gluggann okkar (svo nálægt að ég finn lyktina af matnum þegar fólk borðar hann úti). Það var rosa fínt, ekta ítalskir þjónar sem töluðu voðalega slæma ensku sem skamma mann ef maður bendir á réttina en segir ekki nafn þeirra, ekta ítölsk mamma sem stjórnaði öllu og var rosa frek og rauð í kinnum, í pilsi og með hnút í hárinu og ekta ítalskur pabbi með rosa bumbu sem saup vín allan tímann og tautaði eitthvað á ítölsku. Ekkert of hátíðlegur veitingastaður sem hentaði okkur vel. Ég fékk mér sjávarréttapasta (náði að setja 5 tómatsósubletti í bolinn minn) og Fríða fékk sér rjómasveppapasta eitthvað, líka rosa gott. Við vorum allavega rosa saddar og klukkan var um 23.30 þegar við fórum heim aftur (ekki langt að labba sko). Við vorum að spá í að rúlla okkur bara heim. Þó að staðurinn sé voða heimilislegur þá hefur fullt af frægu fólki borðað á honum og það eru myndir af þjónunum með fólkinu upp á öllum veggjum. Maturinn var líka ódýr, við fengum risa skammta, með brauði á undan, vatnsflösku og Fríða fékk sér rauðvínsglas og allt kostaði þetta 25 pund (um 2800 krónur). Það er álíka og einn réttur á veitingastað heima og varla það.

Hlakka svo til að fá Jóhannes heim, loksins. Erum að spá í sushi á morgun. Það verður í fyrsta skipti sem við höfum tíma til að fara að borða síðan ég átti afmæli 25. apríl. Við höfum ætlað að fara hverja helgi en það hefur allt verið kreisí. Kannski að við drullumst nú loksins.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It