Bláberjate
23. ágúst, 2009
Bláber eru flokkuð sem súperfæða (ofur holl) og ekki að undra þar sem þau eru algjörlega pakkfull af andoxunarefnum og vítamínum. Dökkblái liturinn er greinilegt merki um það, ekki síst í aðalbláberjunum. Bláber, sérstaklega aðalbláberin hafa verið notuð í lækningarskyni um langa tíð og við erum einstaklega heppin að hafa þau við höndina á haustin þó stuttan tíma sé. Bláber innihalda járn og trefjar, eru góð fyrir hjarta, heila og sjón og þykja góð í að sporna gegn myndun ýmissa tegunda krabbameins. C vítamínið hjálpar svo við upptöku á járninu svo útkoman verður reglulega hollt og gott te sem er bæði járnríkt og bragðgott. Þetta er uppáhaldsteið mitt á haustin þegar bláberin eru glæný en einnig má nota frosin bláber.
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
Bláberjate
Fyrir 2
Innihald
- 100 g bláber, fersk eða frosin
- 5 dropar stevia án bragðefna (eða 2 tsk acacia hunang ef þið eruð ekki vegan)
- 2 tsk sítrónusafi
- 600 ml vatn
Aðferð
- Setjið bláber stevia og sítrónusafa í lítinn pott.
- Látið suðuna koma upp án þess að bullsjóði.
- Ef notuð eru fersk eða frosin bláber er gott að kremja þau með matskeið í pottinum.
- Bætið vatninu saman við og hitið að suðu.
- Hellið vökvanum í gegnum fíngatað sigti.
- Hellið í glös, leyfið teinu að kólna í 2-3 mínútur og berið fram.
Gott að hafa í huga
- Drykkurinn er einnig afbragð ískaldur. Kælið teið þangað til það er orðið ískalt, bætið 2 dropum af stevia út í til viðbótar eða 1 tsk af acacia hunangi. Setjið nokkra ísmola út í og berið fram.
- Nota má agavesíróp í staðinn fyrir hunangið ef þið eruð vegan.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024