Bláberjagrautur
Þessi uppskrift er tilvalin í berjavertíðinni. Það er ekkert betra en að nota fersk bláber í matinn sinn, hvað þá fyrir litlu börnin. Þessi uppskrift kemur frá Melkorku Mjöll Kristinsdóttur, tryggum notanda vefjarins. Ég læt textann frá henni fylgja með: „Bláberjamauk hentar börnum frá 6 mánaða aldri. Almenna reglan er sú samkvæmt ljósmodir.is að það þurfi að fara varlega í að kynna ber fyrir börnum. Bláber eru stemmandi og því er best að gefa ekki of mikið af þeim í einu, annars geta börn fengið hægðatregðu skv. sömu heimild. Mín reynsla er sú að bláber hafa verið afar vinsæl hjá mínu barni. Börn þurfa nauðsynlega að fá nægilega mikið járn úr matnum frá um 6 mánaða aldri vegna þess að á þeim aldri eru meðfæddar járnbyrgðir þeirra á þrotum skv. ljósmæðrum” Bæði innihaldslýsingin og uppskriftin hér að neðan er frá Melkorku.
Athugið að skammtastærðin er einungis viðmið. Sum börn þurfa meira og önnur minna. Einnig getur skipt miklu máli hvort barn er byrjað að skríða og hreyfa sig, varðandi hversu mikið það borðar.
Bláberjagrautur er frábær með ferskum bláberjum á haustin
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
Bláberjagrautur
Innihald
- 125 g bláber, gufusoðin
- 150 ml vatn
- 35 g maísmjöl (eða hrísmjöl)
Aðferð
- Gufusjóðið bláber í nokkrar mínútur.
- Kælið bláberin og maukið þau með matvinnsluvél/blandara/ töfrasprota ásamt um 150 ml af soðvatninu.
- Setjið í djúpan disk og maísmjölið eða hrísmjölið út í. Þetta virðist vera soldið þunnt en ef þið bíðið smá stund þá hleypur maukið svipað og sulta gerir.
- Gott er að hræra með gaffli til að það myndist ekki kekkir.
Gott að hafa í huga
- Ef barnið á að borða grautinn strax hefur mér reynst vel að setja grautinn á annan disk þar sem mesti hitinn fer í að hita upp diskinn.
- Það er hægt að frysta afganginn í tómri barnamatskrukku.
- Munið bara að fylla ekki krukkuna því vatnið þenst út, og svo hef ég lokað með plastfilmu en ekki með loki til vonar og vara, til að krukkan springi ekki í frystinum.
- Þegar nota á grautinn er betra að hita hann upp áður en ekki bara afþíða vegna þess að áferðin verður síðri.
- Athugið að til að hjálpa járnupptökunni má setja 1 msk af appelsínusafa út í grautinn (og minnka vatnsmagnið sem því nemur).
- Ef þið eruð stödd þar sem þið getið ekki blandað hráefnið má bjarga sér með hvítlaukspressu (fyrir litla skammta)!