Berja- og tofudrykkur
5. febrúar, 2006
Þessi berjadrykkur (smoothie) er stútfullur af hollustu eins og andoxunarefnum úr berjunum ásamt próteinum, járni og C vítamíni. Mmmmmmm. Ekki vera hrædd við að nota tofu, það finnst nánast ekkert bragð af því en gerir drykkinn bara þykkari. Hægt er að nota hreint skyr í staðinn. Gott er að nota frosin ber svo drykkurinn verði sem kaldastur en einnig má nota ísmola ef berin eru ekki frosin.
Athugið að blandara þarf til að útbúa uppskriftina.

Lillablár berjadrykkur (smoothie)
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
Berja- og tofudrykkur
Fyrir 2-3
Innihald
- 100 g hindber, frosin (eða fersk)
- 60 g bláber, frosin (eða fersk)
- 1 vel þroskaður banani
- 50 ml hreinn appelsínusafi
- 100-200 ml sojamjólk (eða önnur mjólk)
- 50 g tofu, mjúkt (eða hreint skyr)
- 3 msk agavesíróp eða hreint hlynsíróp (enska: maple syrup)
Aðferð
- Setjið bláber, hindber og banana í blandarann ásamt appelsínusafanum. Blandið í um 5 sekúndur.
- Bætið sojamjólk, tofui og agavesírópi út í og blandið í 10 sekúndur þangað til silkimjúkt.
- Berið fram strax.
Gott að hafa í huga
- Til að hafa drykkinn þykkari skal bæta meira tofu við og til að fá þynnri má nota sojamjólk.
- Hægt að nota acacia hunang í staðinn fyrir agave- eða hlynsíróp.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2025