Bauna- og túnfisksborgarar

Þessi uppskrift er auðveld í undirbúningi því mest af hráefninu fer í matvinnsluvél. Uppskriftin er líka mjög holl því í túnfiskinum eru Omega 3 fitusýrur sem hjálpa til að sporna við hjartasjúkdómum. Einnig eru túnfiskur og kjúklingabaunir rík af E vítamíni sem er sterkt andoxunarefni og hjálpar til við að sporna t.d. við krabbameini, hjartasjúkdómum og ýmsu öðru. Það er sniðugt að búa til tvöfaldan skammt og frysta afganginn því borgararnir geymast í um mánuð í frysti. Ég ber yfirleitt fram jógúrtsósu eða sinnepssósu með borgurunum ásamt salati og byggi eða hýðishrísgrjónum. Ég set þá líka gjarnan í nestisboxið.

Matvinnsluvél þarf til að mauka hráefnið.

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Án hneta

Bauna- og túnfisksborgarar

Gerir um 10 borgara

Innihald

 • 2 x 420 g dósir kjúklingbaunir (sigtið vatnið frá)
 • 6-7 vorlaukar, saxaðir gróft (allur laukurinn notaður nema hvítasti hlutinn)
 • 400 g túnfiskur í dós í  vatni (ekki olíu)
 • 1 chili pipar, rauður
 • 1 hvítlauksrif, afhýtt og saxað gróft
 • 1 msk kókosolía
 • Ein lúka ferskt coriander, saxað gróft
 • 1 tsk cumin (ekki kúmen)
 • 0,5 tsk karrí
 • 1 tsk steinselja
 • 0,25 tsk pipar
 • 30 ml sítrónusafi

Aðferð

 1. Saxið vorlaukinn gróft (hvítasti hlutinn ekki notaður).
 2. Saxið corianderlaufin.
 3. Skerið chili piparinn langsum, fræhreinsið og saxið gróft.
 4. Afhýðið hvítlaukinn og saxið smátt.
 5. Hellið vökvanum af kjúklingabaununum. Setjið kjúklingabaunirnar og vorlaukinn í matvinnsluvél og maukið í nokkrar sekúndur. Ekki samt mauka alveg í spað.
 6. Bætið túnfiskinum, vorlauknum, chili piparnum, cumin, karrí, pipar, kókosolíu, hvítlauk, steinselju, sítrónusafa og corianderlaufunum út í matvinnsluvélina. Blandið í nokkrar sekúndur þannig að allt blandist vel saman án þess þó að verði að mauki.
 7. Skiptið deiginu í 10-12 hluta og notið hendurnar til að móta buffin.
 8. Hitið í ofni við 200°C  í um 20-25 á hvorri hlið. Hitið lengur ef þið viljið harðari skorpu.

Gott að hafa í huga

 • Berið fram með salati (t.d. spínati eða lambhagasalati, þurrristuðum furuhnetum, kirsuberjatómötum, ólífum o.fl.).
 • Hægt er að nota borlotti baunir eða cannellini baunir í stað kjúklingabaunanna.
 • Kaupið aðeins „Dolphin friendly” túnfisk (yfirleitt merkt utan á dósinni).
 • Ég ber yfirleitt fram hvítlauksjógúrtsósu eða sinnepssósu með borgurunum ásamt salati og byggi eða hýðishrísgrjónum.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.