Bauna- og spínatsúpa

Þessi súpa ætti eiginlega að heita prumpusúpa....baunir og spínat eru nokkuð góð ávísun á loftgang fram eftir degi en í staðinn hefur súpan það með sér að vera einstaklega holl. Þeir sem eru vanir að borða baunir og spínat finna lítið fyrir auknum vindstigum en þeir sem eru óvanir ættu að fara varlega í prumpusúpuna...byrja smátt og auka svo við sig baunamagnið. Bakteríurnar í maganum eru viðkvæmar og það má ekki koma þeim svona á óvart. En áfram með hollustuna....spínatið er járnríkt og fullt af andoxunarefnum. Rauðar linsubaunir eru sérlega ríkar af fólinsýru, eitthvað sem ég er ekki viss um að margar konur (eða karlar) vita. Fólinsýra er sérlega mikilvæg ófrískum (og verðandi ófrískum)&;konum&;en þær stuðla að heilbrigðum þroska fósturs. Linsubaunir eru einnig sérlega trefjaríkar, próteinríkar og ríkar af B vítamínum. Linsubaunir geta einnig lækkað vonda kólesterólið í blóðinu og innihalda mikið af magnesíum sem er mikilvægt fyrir hjartað okkar. Súpan hentar þeim sem hafa mjólkuróþol, glúteinóþol, hnetuóþol og þeim sem eru jurtaætur (enska: vegan). Svo fyrir utan allt þetta er súpan hræódýr og saðsöm en engu að síður fitusnauð og létt! Neytið í vel loftræstu herbergi og alls ekki á fyrsta stefnumóti!

Athugið að best er að nota matvinnsluvél, blandara eða töfrasprota til að mauka súpuna.


Bauna- og spínatsúpa. Mengandi en góð.

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Án hneta
 • Vegan

Bauna- og spínatsúpa

Fyrir 4

Innihald

 • 1 laukur, saxaður gróft
 • 1 hvítlauksgeiri, saxaður gróft
 • 1 tsk kókosolía og vatn til viðbótar ef þarf
 • 1 tsk cumin (ekki kúmen)
 • 0,5 tsk tumeric
 • 0,5 tsk coriander
 • 300 g rauðar linsubaunir
 • 1,1 lítri vatn
 • 3 gerlausir grænmetisteningar
 • 125 g ferskt spínat, stönglarnir skornir af og blöðin sneidd í ræmur

Aðferð

 1. Afhýðið laukinn og hvítlaukinn og saxið gróft.
 2. Hitið kókosolíuna í stórum potti.
 3. Steikið laukinn og hvítlaukinn í nokkrar mínútur eða þangað til laukurinn fer að mýkjast. Bætið við vatni ef þarf.
 4. Bætið cumin, coriander og turmeric saman við og hitið í nokkrar mínútur eða þangað til allt fer að ilma vel.
 5. Bætið baununum við ásamt vatninu og grænmetisteningunum.
 6. Látið malla í um 20-30 mínútur ekki með lokinu á þangað til baunirnar fara að mýkjast vel.
 7. Kælið súpuna aðeins og blandið svo í matvinnsluvél eða með töfrasprota þangað til hún er orðin vel maukuð og mjúk.
 8. Saxið spínatið frekar smátt (hendið stönglunum).
 9. Setjið súpuna aftur í pottinn og bætið spínatinu saman við.
 10. Hitið að suðu í um 5 mínútur.
 11. Berið fram með snittubrauði eða öðru góðu brauði.

Gott að hafa í huga

 • Súpan er enn þá betri daginn eftir.
 • Til að geyma súpuna er best að setja hana í lokað plastílát eftir að hún er orðin köld og geyma svo í ísskápnum. Svo er hægt að setja í pott og hita upp daginn eftir. Ef súpan er mjög þykk má setja 1 glas af vatni eða svo út í súpuna til að þynna hana.
 • Nota má frosið spínat en gæta þarf þess að allt vatn sé kreist úr því áður en það er sett í súpuna.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Nota má aðra olíu en kókosolíu, t.d. vínberjakjarnaolíu eða repjuolíu.
 • Gerlausir grænmetisteningar fást í heilsubúðum og stærri matvöruverslunum.
 • Ef þið eruð ekki viðkvæm fyrir geri getið þið notað venjulega, lífrænt framleidda grænmetisteninga.

Ummæli um uppskriftina

Halli
23. feb. 2014

Hæ, ég prófaði þessa súpu í kvöld og hún er mjög góð. Ég er reyndar mjög hrifinn af lauk, svo ég tvöfaldaði lauk-skammtinn en ég mæli allavega með þessari. Takk fyrir mig.

sigrun
23. feb. 2014

Takk fyrir Halli og gott hjá þér að laga súpuna að þínum óskum :)