Bananamuffins

Þessir glúteinlausu bananamuffinsar komu aldeilis á óvart því bæði ég og Jóhannes mauluðum þá með góðri lyst. Við þolum bæði glútein vel en mig langaði að prófa þessa og þeir voru bara virkilega fínir, bæði sætir og ekki of þéttir og svo var bara gott bananbragð af þeim. Ég á alveg eftir að gera þessa aftur þó svo að ég sé ekki með glúteinóþol né ofnæmi!! Þessir eru úr bók sem ég á sem heitir Muffins: Fast and Fantastic eftir Susan Reimer. Það sem ég og Nigella Lawson eigum sameiginlegt (það eina hugsa ég) er að við eigum báðar þessa bók og höldum mikið upp á hana. Uppskriftin er nánast óbreytt nema það átti að vera xanthan gum í uppskriftinni sem ég sleppti og ég notaði eina eggjahvítu í staðinn.

Athugið að best er að nota silicon muffinsform en ef þið eigið ekki slíkt getið þið sniðið hringi úr bökunarpappír til að setja í muffins bökunarform.

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án hneta

Bananamuffins

Gerir 12 stykki

Innihald

  • 200 g hrísmjöl
  • 60 g kartöflumjöl
  • 30 g maísmjöl
  • 2 tsk vínsteinslyftiduft
  • 1 tsk kanill (má sleppa)
  • 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • 4 stórir, vel þroskaðir bananar (mega vera orðnir blettóttir/svartir).
  • 100 g rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
  • 1 egg, lauslega hrært
  • 1 eggjahvíta, lauslega hrærð
  • 1 msk kókosolía
  • 90-120 ml sojamjólk

Aðferð

  1. Sigtið saman í stóra skál; maísmjöl, hrísmjöl, kartöflumjöl, salt, kanil og lyftiduft. Hrærið vel.
  2. Afhýðið banana og stappið vel.
  3. Setjið banana í skál ásamt eggi, eggjahvítu, rapadura hrásykri, mjólk og kókosolíu. Hrærið vel.
  4. Hellið bananablöndunni út í stóru skálina. Hrærið nokkrum sinnum í deiginu þannig að allt blandist vel saman. Athugið að deigið verður nokkuð blautt.
  5. Takið til silicon muffinsform. Setjið nokkra dropa af kókosolíu í eldhúsþurrku og strjúkið holurnar að innan.
  6. Fyllið hverja holu nánast upp að rönd með deigi. Gott er að nota ískúluskeið.
    Bakið við 200°C í um 20-25 mínútur.

Gott að hafa í huga

  • Það er frábært að bæta söxuðum valhnetum eða pecanhnetum saman við og eins er mjög gott að bæta söxuðu carob fyrir þá sem vilja (eða dökkt, lífrænt framleitt súkkulaði með hrásykri).
  • Ef maður notar ekki olíu eða smjör í deigið þá getur maður hvorki notað venjuleg muffins pappírsform, né muffinsbökunarplötu úr járni. Það fást sem sé ekki muffins pappírsform sem maður getur bakað í án þess að þurfa að nota smjör eða olíu í deigið. Það sem þið getið gert er að sníða hringi úr bökunarpappír. Strikið með penna utan um undirskál og klippið út. Setjið svo í hverja muffinsholu. Það er hægt að nota muffinspappírinn í allt að sex skipti. Ef þið notið silicon muffinsform þurfið þið ekki bökunarpappír.
  • Nota má undanrennu, hrísmjólk, haframjólk eða möndlumjólk í staðinn fyrir sojamjólk.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.

Ummæli um uppskriftina

Kristín Una
11. des. 2012

Sæl Sigrún og kærar þakkir fyrir frábæra síðu!

Heldurðu að múffurnar myndu virka jafnvel með kókosmjöli í stað hrísmjöls?

Kveðja, Kristín

sigrun
11. des. 2012

Hmmmm þú gætir þurft aukaegg og þá þarftu líklega að draga úr vökvamagninu svo að muffinsarnir verði ekki eins og grjót. Þyrfti að gera nokkrar tilraunir á uppskriftinni til að vera viss!!

Kristín Una
12. des. 2012

Hef það í huga ef ég reyni, takk fyrir hjálpina!