Bananamuffins

Muffinsgerðin á þessu heimili er nú alveg sér kapituli. Jóhannes er svoddan muffinskarl að ég held að núna eigi ég 6 bækur bara um muffinsgerð (átti ekki 1 áður en við fluttum til London) því með stærra eldhúsi er meira pláss til tilrauna. Það er svo einfalt að búa til muffins, bara passa að hræra deigið ekki of mikið svo muffinsarnir verði ekki of harðir og þungir. Ég nota aldrei smjör og ég nota litla olíu í muffinsuppskrift og yfirleitt skiptir það litlu máli því þeir klárast svo hratt að þeir hafa ekki tíma til að þorna upp. Ég frysti líka muffinsana ef einhverjir eru umfram og set svo í nestisboxið þegar ég vil gera vel við okkur. Það er undir ykkur komið hvort þið viljið gera þær óhollari eða ekki, þetta er mín útgáfa.

Upprunaleg uppskrift er frá Nigellu Lawson úr How to be a Domestic Goddess en hún fékk svo uppskriftina úr The Joy of Muffins (sem bæði ég og Nigella eigum. Ég er búin að breyta uppskriftinni aðeins, enda erum við Nigella afar ólíkar hvað varðar stefnu í heilsumálum he he.

Athugið að best er að nota silicon muffinsform en ef þið eigið ekki slíkt getið þið sniðið hringi úr bökunarpappír til að setja í muffins bökunarform (sjá leiðbeiningar í Gott að hafa í huga) hér fyrir neðan.


Bananamuffins. Hollir og góðir með kaffinu.

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur
  • Án hneta

Bananamuffins

Gerir 12 muffinsa

Innihald

  • 250 g spelti
  • 2 kúfullar tsk vínsteinslyftiduft
  • 1,5 tsk kanill
  • 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • 50 g haframjöl
  • 70 g rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
  • 4 dropar stevia (eða 1 msk hunang)
  • 5 litlir, vel þroskaðir bananar (mega vera svartir) eða 4 stórir
  • 2 stór egg
  • 1 msk kókosolía
  • Svolítið haframjöl til að dreifa yfir muffinsana (má sleppa)

Aðferð

  1. Sigtið saman í stóra skál; spelti, lyftiduft, kanil og salt. Bætið haframjölinu út í og hrærið vel.
  2. Afhýðið bananana og stappið þá.
  3. Í aðra skál skuluð þið blanda saman bönunum, rapadura hrásykri, eggjahvítum, eggi, stevia og kókosolíu. Hrærið vel.
  4. Hellið eggjablöndunni út í stóru skálina og veltið deiginu til. Alls ekki hræra of mikið (4-5 hreyfingar eiga að vera nóg) því deigið á að vera gróft og kekkjótt til að það haldist létt.
  5. Takið til silicon muffinsform. Setjið nokkra dropa af kókosolíu í eldhúsþurrku og strjúkið holurnar að innan.
  6. Fyllið hverja holu nánast upp að rönd með deigi. Gott er að nota ískúluskeið.
  7. Dreifið svolitlu haframjöli yfir muffinsana.
  8. Bakið við 190°C í um 25 mínútur.

Gott að hafa í huga

  • Það er guðdómlegt að setja 1 lúku af söxuðum pecanhnetum eða valhnetum út í deigið.
  • Ef maður notar ekki olíu eða smjör í deigið þá getur maður hvorki notað venjuleg muffins pappírsform, né muffinsbökunarplötu úr járni. Það fást sem sé ekki muffins pappírsform sem maður getur bakað í án þess að þurfa að nota smjör eða olíu í deigið. Það sem þið getið gert er að sníða hringi úr bökunarpappír. Strikið með penna utan um undirskál og klippið út. Setjið svo í hverja muffinsholu. Það er hægt að nota muffinspappírinn í allt að sex skipti. Ef þið notið silicon muffinsform þurfið þið ekki bökunarpappír.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.

Ummæli um uppskriftina

Sara Björk
09. mar. 2011

Þær eru rosalega góðar þessar muffinskökur!

sigrun
09. mar. 2011

Gaman að heyra Sara og takk fyrir að deila með okkur :)

Tóta
07. sep. 2011

Ég bakaði þessa muffinsa með 2 heilum eggjum og 3 stórum bönunum og þeir eru stórkostlegir !

En ég er á þeim stað í lífinu að vera að spá í kaloríur og það eru s.s 200 kal í stk miðað við 10 stóra muffinsa. Svona bara ef einhverjir fleirri en ég séu að spá í kaloríur :)

sigrun
07. sep. 2011

Já ég hugsa að það sé nærri lagi....þeir eru frekar stórir. :)

Hildur Rán
09. júl. 2012

Þessir möffins eru æði!! Ég sleppti öllum sykri og sýrópi og finnst þeir samt nógu sætir(fyrir mig) því að bananarnir gefa svo mikla sætu :) Takk fyrir frábæran vef!

sigrun
09. júl. 2012

Gaman að heyra :) Já einmitt, ef bananarnir eru mjög stórir og vel þroskaðir þá má minnka sykurinn töluvert og jafnvel sleppa honum. Börnin mín borða þá þannig með bestu lyst :)

Karin
04. ágú. 2012

Er hægt að gera þessa uppskrift án eggja? :)

sigrun
05. ágú. 2012

Sæl....

Nei það held ég ekki, þeir verða þurrir og flatir en spurning með eggjalíki úr heilsubúð? Hef aldrei notað svoleiðis reyndar svo ég veit ekki hvernig þeir koma út með svoleiðis.

Silja
07. jan. 2013

Kémur líka rosalega vel út að nota pálma sykur .. Hann er hollur góður. Allavega kláruðust þær strax heima hjá mer.

sigrun
07. jan. 2013

Ég nota pálmasykur líka töluvert...það er enginn sykur „hollur" í sjálfu sér en hann er ekki eins hræðilega slæmur og hvíti sykurinn....og er líka svakalega bragðgóður :)

Guðbjörg Bj
07. jan. 2014

Ég elska þessar muffins. Er komin í það að baka tvöfaldar uppskriftir og frysta. Takk fyrir góða síðu. Ég nota hana mikið.

Sigga Rúna
03. nóv. 2014

Sæl Sigrún,
Ég er búin að baka þessa muffinsa nokkrum sinnum, mjög góðir.
Ákvað að prufa að breyta aðeins og mæli með að þú prófir útkomuna...urðu hrikalega góðir.
Styðst við þessa uppskrift en sleppi kanil og stevíu, nota 1 matskeið hunang og 2 matskeiðar hrásykur, örlítið meiri olíu. Svo bæti ég við rifinn börk af einni sítrónu og safa úr einni sítrónu. Passa bara að deigið verði ekki of blautt. Krakkarnir eru sjúkir í þessa muffinsa og ég líka!
Sítrónukeimurinn gerir ótrúlega mikið. Endilega prufaðu og njóttu.
Takk fyrir brilljant vef.
Kveðja,
Sigga Rúna (vinkona Lísu)

sigrun
03. nóv. 2014

Takk Sigga og mér líst hrikalega vel á þessar viðbætur, ætla að prufa við tækifæri :)