Bananadrykkur frá Nairobi

Það var um haustið 2007 þegar við Jóhannes vorum (oft sem áður) í Nairobi. Við vorum nýkomin frá Zanzibar en þar áður höfðum við verið að lóðsa nokkra hópa fólks um Kenya. Við vorum með 7 tíma aflögu fyrir næsta flug (til London). Ég hringdi í James sem er innfæddur leigubílstjóri (eða réttara sagt strákpjakkur sem leigir gamla druslu og rúntar með fólk og fær um 500 krónur á dag fyrir). Ég hafði fengið James nokkrum sinnum til að skutla mér og líkaði vel við þennan hægláta en duglega strák. Nú, hann fór með okkur inn til Nairobi og við ákváðum að eyða tímanum í bókabúð, hnetukaup og ávextakaup fyrir flugferðina og við fórum líka á nokkur kaffihús. Við fórum í Sarit Centre sem er stór verslunarmiðstöð í Westlands hverfinu í Nairobi en þar er öruggt og þægilegt að versla. Þó að ég sé ekki hrifin af verslunarmiðstöðvum þá er eitthvað öðruvísi við að versla þar sem varðmenn vopnaðir AK 47 rifflum eru á sveimi!, ekki alveg Smáralindsstemmningin. Við versluðum nokkrar bækur, þó ekki uppskriftabækur (því ég á þær flestar um afríska matargerð), fengum okkur ljúffengt kaffi á Dormans og rétt áður en við ætluðum að hitta James aftur ákváðum við að hendast upp á efstu hæð og grípa með okkur bananadrykkinn góða sem við fáum okkur alltaf þegar við eigum leið þarna um. Við þeystumst upp, þeystumst aftur niður með bananadrykk í hönd (risaglös) og út í bíl.

Það vildi ekki betur til en svo að Jóhannes náði að hella yfir sig allan um 400 ml af klístruðum bananadrykk. Það var 30 stiga hiti og engin loftkæling, við á leið út á flugvöll, fötin í töskunni, ekki einu sinni pappír uppi við og bílsætið óóóóóógeðslegt. Aumingja James. Við vorum alveg miður okkar en tókst að ná í hreinan bol, þurrka það mesta úr sætum og af buxum og hendast út á flugvöll. Jóhannes var svo svekktur að ég gat ekki annað en gefið honum eiginlega allan minn drykk (allt of mikið fyrir mig hvort eð var). Við skildum við James á flugvellinum með fullt af þjórfé og pening fyrir þrifum. Hann brosti bara sína breiða brosi og sagði „Hakunamatata”. En sem sagt þetta er uppskriftin af bananadrykknum og á meðan þið drekkið hann, ímyndið ykkur að þið hellið rúmlega 400 ml yfir ykkur í bíl í 30 stiga hita og með enga loftkælingu. Veeeeel klístrað!

Uppskriftin innihélt upphaflega hunang (athugið, ekki vegan) en ég skipti því út fyrir hlynsíróp. Athugið að þið þurfið blandara til að útbúa uppskriftina.


Sætur og seðjandi bananadrykkur frá Nairobi

Þessi uppskrift er:

  • Án glúteins
  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Án hneta

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Vegan (fyrir jurtaætur)

Bananadrykkur frá Nairobi

Fyrir 2

Innihald

  • 4 ísmolar
  • 150 ml sojamjólk
  • 2 vel þroskaðir, stórir bananar
  • 1 msk acacia hunang (eða hlynsíróp)

Aðferð

  1. Setjið ísmolana í blandarann og hellið svolitlu af sojamjólk út á. Blandið í nokkrar sekúndur.
    Setjið banana, hunang og afganginn af sojamjólkinni út í.
  2. Blandið vel eða í upp undir mínútu.
  3. Berið fram strax.

Gott að hafa í huga

  • Nota má undanrennu, hrísmjólk, haframjólk eða möndlumjólk í staðinn fyrir sojamjólk.