Banana- og döðlusmákökur

Þessa uppskrift fann ég eftir eitthvert rápið á netinu en breytti henni töluvert. Þessar smákökur eru afskaplega hollar og innihalda trefjar og prótein. Þær eru ekki fyrir þá sem eru mikið fyrir dísætar kökur!!! Smákökurnar eru frekar mjúkar.

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur
  • Án eggja
  • Vegan

Þessa uppskrift er auðvelt að gera:

  • Án hneta

Banana- og döðlusmákökur

Gerir um 30 smákökur

Innihald

  • 3 bananar vel þroskaðir, afhýddir og maukaðir
  • 4 msk kókosolía
  • 120 g döðlur, mjög smátt saxaðar
  • 200 g haframjöl
  • 60 g saxaðar valhnetur (má sleppa)
  • 30 g rúsínur
  • 60 g Rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
  • 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)

 

Aðferð

  1. Afhýðið banana og stappið þá mjög vel. Setjið í stóru skál og hrærið kókosolíunni saman við.
  2. Saxið döðlurnar mjög smátt og setjið í stóru skálina. Hrærið vel.
  3. Saxið hneturnar mjög smátt og setjið í aðra, minni skál.
  4. Bætið haframjöli, rúsínum, salti og rapadura hrásykri út í minni skálina og hrærið vel.
  5. Hellið nú innihaldi minni skálarinnar út í þá stóru og hrærið aðeins.
  6. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu.
  7. Setjið deigið á plötuna með matskeið (litlar hrúgur). Ýtið lauslega ofan á hrúguna þannig að kökurnar fletjist aðeins út.
  8. Bakið við 180°C í um 25-30 mínútur eða þangað til kökurnar eru gullnar, ilmandi og svakalega freistandi.

 

Gott að hafa í huga

  • Athugið að smákökurnar eru bestar nýbakaðar. Frystið þær smákökur sem þið borðið ekki samdægurs og hitið svo upp síðar. Þær verða eins og nýbakaðar.
  • Til að fá fínni áferð, má blanda helmingnum af haframjölinu í matvinnsluvél þangað til nokkuð fínt malað.
  • Nota má pecanhnetur í staðinn fyrir valhnetur.
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Sleppa má hnetunum og nota 1 msk af kókosolíu til viðbótar.
  • Gott er að saxa dökkt, lífrænt framleitt súkkulaði með hrásykri, út í deigið.

Ummæli um uppskriftina

gestur
25. nóv. 2012

Bakaði þessar í dag og notaði súkkulaðið sem ég gleymdi að setja í banana, hafra og súkkulaðikökurnar. UHMMMMMMMMMM, þessar eru ægilega góðar og verður frábært að eiga þær í frystinum fram eftir vetri hér í Portugal. Nammmmmmmmmmmmmm.

sigrun
25. nóv. 2012

Ha ha ok, brilliant, gaman að heyra :)

gestur
25. nóv. 2012

hæhæ, get ég notað agavesýróp í staðin fyrir hrásykur ? hvað mikið af því myndi ég þá nota ?

sigrun
25. nóv. 2012

Það er í sjálfu sér hægt en smákökurnar verða líklega mýkri. Notaðu 60 ml af agavesírópi og notaðu 2,5 banana, ekki 3.