Banana- og carobbitakökur

Þessar eru einfaldar og nokkuð hollar þar sem tahini (sesamsmjör/sesammauk) er töluvert fituminna en t.d. venjulegt smjör og hefur þann kost að vera bæði járnríkt og kalkríkt sem og koparríkt. Undrafræið sesam inniheldur einnig mikið af magnesíum. Koparinn gegnir miklu hlutverki hjá þeim sem hafa liðagigt en það hefur bólgueyðandi áhrif. Magnesíum hefur góð áhrif á þá sem hafa astma, lækkar blóðþrýsting og margt fleira. Ég nota dökkt tahini (þá eru sesamfræin með hýðið utan á sér) en það gefur okkur 88 milligrömm af kalki á hverja teskeið á móti 37 milligrömmum ef sesamfræin eru án hýðisins. Svo ofan á allt þetta innhalda sesamfræ zinc en það er mikilvægt fyrir beinin okkar og hefur áhrif á beinþéttni. Svo eru smákökurnar bara ógurlega góðar....

Uppskriftin er merkt sem hnetulaus en athugið að sesamfræ geta valdið ofnæmi. Athugið að mota má súkkulaði í staðinn fyrir carob.

Athugið að nota þarf matvinnsluvél fyrir þessa uppskrift.

Þessi uppskrift er:

 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Án hneta en með fræjum
 • Án hneta
 • Vegan

Banana- og carobbitakökur

Gerir um 30 stykki

Innihald

 • 100 g dökkt carob (lítur út eins og súkkulaði), saxað frekar smátt
 • 320 g haframjöl, helmingurinn malaður í matvinnsluvél
 • 160 ml hreint hlynsíróp (enska: maple syrup)
 • 160 ml tahini (sesamsmjör), dökkt
 • 1 stór banani, vel þroskaður

Aðferð

 1. Saxið carobið frekar smátt (hvern bita í um 4 hluta).
 2. Setjið helminginn af haframjölinu í matvinnsluvél og malið í um 20 sekúndur eða þangað til haframjölið er fínmalað.
 3. Afhýðið bananann og bætið út í matvinnsluvélina ásamt hlynsírópi og tahini. Maukið vel.
 4. Blandið saman banana, hlynsírópi og tahini í matvinnsluvél og blandið í um 10 sekúndur. Setjið í stóra skál.
 5. Blandið afganginum af haframjölinu út í skálina ásamt carobinu.
 6. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu.
 7. Setjið kúfaða matskeið af deigi fyrir hverja smáköku, á plötuna. Ýtið varlega ofan á hverja köku með gaffli (gott að bleyta hann á milli).
 8. Bakið við 180°C í um 15-20 mínútur.
 9. Takið úr ofninum (ekki láta freistast....því maður brennir sig..skrifa af mikilli reynslu) og látið kólna.

Gott að hafa í huga

 • Hægt er að nota dökkt, lífrænt framleitt súkkulaði með hrásykri í staðinn fyrir carob.
 • Nota má döðlur í stað carobs eða súkkulaðis.
 • Það er mjög gott að nota 1 stóra lúku af söxuðum Brasilíuhnetum í uppskriftina.
 • Nota má cashewhnetumauk eða hnetusmjör á móti tahini-inu.
 • Athugið að carob og súkkulaði getur innihaldið mjólk, lesið ávallt innihaldslýsingu ef þið eruð með óþol/ofnæmi. Ég nota mjólkurlaust carob í þessa uppskrift.
 • Carob og tahini fæst í heilsubúðum og heilsuhillum stærri matvöruverslana.
 • Athugið að smákökurnar eru bestar nýbakaðar. Frystið þær smákökur sem þið borðið ekki samdægurs og hitið svo upp síðar. Þær verða eins og nýbakaðar.