Ástralskt hermannakex (ANZAC)

Þessi uppskrift kemur frá einum notanda vefjarins sem heitir Sólborg Hafsteinsdóttir. Hún sendi mér upphaflegu uppskriftina sem henni þótti óholl og bað mig um að kíkja á hana varðandi það hvort væri hægt að gera hana eitthvað hollari. Mér leist vel á uppskriftina og ákvað að prófa. Ég veit auðvitað ekki hvort þetta sé eitthvað sambærilegt við kexið sem Sólborg fékk í Ástralíu en það var a.m.k. alveg ofsalega gott. Kókos- og haframjöl ásamt&;hreinu hlynsírópi er mjög góð blanda. Svona til skemmtunar þá fylgdi saga þessum kökum og hún er svona: „Já sagan í kringum ANZAC-kökurnar er sú að við fjölskyldan fórum til Ástralíu í sumar í heimsókn til tengdafjölskydu minnar og dvöldum hjá þeim í 2 mánuði. Á þessum tíma fórum við í 10 daga ferðalag frá Brisbane (þar sem við dvöldum) og niður til Canberra og á einum viðkomustaðnum sem við gistum á hjá frændfólki tengdapabba hafði þetta gómsæta kex verið bakað og borið okkur gestunum. Ég varð svo hrifin af þessu kexi að ég fékk uppskriftina hjá þeim. Þetta kex er þjóðarkex Ástrala ef svo má segja, því allir þekkja það og kunna að baka. Nafn kexsins er dregið af Australia and New Zealand Army Corpse (ANZAC). Kexið var víst bakað og notað sem fjáröflun fyrir hermenn sem voru að snúa aftur heim úr heimstyrjöldinni fyrri”.

Aðalbreytingin á uppskriftinni er sú er að ég notaði aðeins 5 msk af kókosolíu uppskriftina (ekki 125 ml af smjöri) og barnamat (enginn viðbættur sykur og lífrænt framleiddur) að auki, ég notaði minna af kókosmjöli. Svo notaði ég rapadura hrásykur og&;hreint hlynsíróp (til að fá gljáann eins og af púðursykri). Ég sleppti sesamfræjunum, einfaldlega af því mér fannst kexið nægilega girnilegt eins og það var :)


Kex fyrir ástralska og nýsjálenska hermenn

Þessi uppskrift er:

 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Án hneta

Ástralskt hermannakex (ANZAC)

Gerir um 12 bita

Innihald

 • 125 g spelti
 • 100 g haframjöl (stórir hafrar eða tröllahafrar)
 • 1 tsk vínsteinslyftiduft
 • 75 g kókosmjöl
 • 125 ml hreint hlynsíróp (enska: maple syrup) eða agavesíróp
 • 100 g rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
 • 5 msk kókosolía
 • 125 ml lífrænt framleiddur barnamatur án sykurs; epla-, peru-, eða aprikósumauk
 • 1 msk sesamfræ (má sleppa)

Aðferð

 1. Sigtið saman í stóra skál spelti og lyftiduft. Bætið haframjölinu og kókosmjölinu út í (ásamt sesamfræjum ef þau eru notuð) og hrærið vel.
 2. Í aðra skál skuluð þið hræra saman hlynsírópi, rapadura hrásykri, barnamat og kókosolíu. Hrærið vel og hellið út í stóru skálina. Hrærið öllu varlega saman.
 3. Klæðið 24 sm ferkantað form að innan með bökunarpappír. Hellið deiginu í formið og pressið þangað til úr verður þunnt lag.
 4. Bakið við 180°C í 20-30 mínútur eða þangað til kakan er orðin brún og falleg og hörð að utan.
 5. Kælið kökuna á vírgrind í um 10 mínútur og skerið í ferkantaða bita.

Gott að hafa í huga

 • Til að fá kexið þykkara og mýkra að innan er hægt að hafa deigið þykkara í bökunarforminu (var voða gott svoleiðis, notaði frekar lítið form). Til að fá kexið harðara ætti deigið að vera þynnra (stærra bökunarform).
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Ég nota Hipp Organic, Organix eða Holle barnamat. Þessi merki eiga það sameiginlegt að vera lífrænt framleidd og eru ekki með viðbættum sykri.
 • Í staðinn fyrir barnamat má nota eplamauk (enska: Apple sauce) úr heilsubúð eða heilsudeildum matvöruverslana.
 • Ef afgangur er af barnamatnum má frysta hann í ísmolabox og nota í drykk síðar (smoothie).