Appelsínu, gulrótar og engifersdrykkur
13. janúar, 2007
Þessi drykkur er fullur af C vítamíni og er hreinsandi líka. Engiferið róar magann og oft hefur engifer verið talið betra en sjóveikistöflur þegar maður er sjóveikur. Ég verð að vera sammála vegna þess að sjóveikistöflur gera mann svo hroðalega syfjaðan og mér finnst þær bara auka á vanlíðan. Þetta er upplagður drykkur í byrjun árs, eftir allan jólamatinn þegar líkaminn er farinn að öskra á eitthvað hollt og vítamínríkt. Þennan drykk er best að gera í safapressu en einnig má kaupa appelsínusafa og gulrótarsafa í heilsubúðum og blanda saman.
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
- Hráfæði
Appelsínu, gulrótar og engifersdrykkur
Fyrir 2
Innihald
- 200 ml appelsínusafi (nýkreistur)
- 50 ml gulrótarsafi (2-3 gulrætur)
- 1 sm bútur ferskt engifer, afhýddur
Aðferð
- Ef notaður er blandari: Setjið gulrótarsafann og appelsínusafann í blandara. Afhýðið engiferið og rífið það á rifjárni þannig að safinn leki ofan í blandarann. Blandið í 10 sekúndur.
- Ef notuð er safapressa: Þvoið og skrælið gulræturnar. Afhýðið engiferið. Setjið gulrætur og engifer í safapressuna. Hellið í könnu og blandið appelsínusafanum út í.
- Berið fram strax.
Gott að hafa í huga
- Gætið þess að gulrótarsafinn sé ekki of kaldur því þá verður hann svolítið bragðlaus.
- Nýpressaðan safa borgar sig að drekka strax og hann er tilbúinn því annars nær hann að oxast.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024