Amerískir bláberja- og pecanhnetumuffins

Þessi muffinsar eru reglulega góðir. Það er eitthvað svo unaðslega frábært við bakaðar pecanhnetur og bláber, samsetningin er bara hreint út sagt ómótstæðileg. Muffinsar eru sérlega sniðugir í nestisboxið og eru þessir engin undantekning. Þessir muffinsar eru líka sérlega hollir því þeir innihalda andoxunarefni úr bláberjunum og prótein og holla fitu úr pecanhnetunum.

Athugið að best er að nota silicon muffinsform en ef þið eigið ekki slíkt getið þið sniðið hringi úr bökunarpappír til að setja í muffins bökunarform.

Gætið þess að láta ekki frosin ber þiðna of mikið áður en þau fara í deigið því annars verður deigið fjólublátt og óspennandi


Djúsí muffins með bláberjauppskeru haustsins

Þessi uppskrift er:

  • Án mjólkur

Amerískir bláberja- og pecanhnetumuffins

Gerir 12 stykki

Innihald

  • 100 g pecan hnetur, saxaðar smátt
  • 300 g spelti
  • 2 tsk vínsteinslyftiduft
  • 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
  • 2 egg
  • 120 g rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)
  • 2 msk agavesíróp
  • 50-75 ml sojamjólk (minna ef notuð eru frosin bláber)
  • 250 ml lífrænt framleiddur barnamatur án sykurs; epla-, peru-, eða bláberjamauk
  • 1 msk kókosolía
  • 2 tsk vanilludropar (úr heilsubúð)
  • 300 g bláber, frosin eða fersk. Ef frosin, skal taka berin úr frystinum rétt áður en þau eru sett í deigið

Ofan á til skreytingar:

  • 50 g pecan hnetur, saxaðar smátt
  • 1 msk rapadura hrásykur (eða annar hrásykur)

Aðferð

  1. Saxið allar pecanhneturnar smátt og setjið 50 g til hliðar.
  2. Sigtið saman speltið, lyftidufið og saltið í stóra skál.
  3. Í aðra skál skuluð þið blanda saman eggjum, rapadura hrásykri, agavesírópi, kókosolíu, 50 ml af sojamjólkinni, vanilludropum og barnamatnum.
  4. Hellið eggjablöndunni út í stóru skálina og veltið (hrærið ekki) deiginu aðeins með stórri sleif, mjög varlega þannig að ekki sé hrært of mikið. Ekki vera hissa þó blandan sé ferlega ljót, hún á að vera þannig til að muffinsarnir verið léttir. Ef deigið er mjög þurrt má bæta aðeins meira af sojamjólk við. Veltið deiginu varlega.
  5. Blandið nú bláberjum og pecanhnetum saman við, og hrærið sem allra minnst, bara rétt að velta deiginu við.
  6. Takið til silicon muffinsform. Setjið nokkra dropa af kókosolíu í eldhúsþurrku og strjúkið holurnar að innan.
  7. Fyllið hverja holu nánast upp að rönd með deigi. Gott er að nota ískúluskeið.
  8. Hrærið saman pecanhneturnar sem þið tókuð frá og 1 matskeið af rapadura hrásykrinum. Dreifið yfir muffinsana með teskeið.
  9. Bakið við 200°C í um 25-30 mínútur.

Gott að hafa í huga

  • Ef maður notar ekki olíu eða smjör í deigið þá getur maður hvorki notað venjuleg muffins pappírsform, né muffinsbökunarplötu úr járni. Það fást sem sé ekki muffins pappírsform sem maður getur bakað í án þess að þurfa að nota smjör eða olíu í deigið. Það sem þið getið gert er að sníða hringi úr bökunarpappír. Strikið með penna utan um undirskál og klippið út. Setjið svo í hverja muffinsholu. Það er hægt að nota muffinspappírinn í allt að sex skipti. Ef þið notið silicon muffinsform þurfið þið ekki bökunarpappír.
  • Nota má valhnetur í staðinn fyrir pecanhnetur.
  • Nota má undanrennu, hrísmjólk, haframjólk eða möndlumjólk í staðinn fyrir sojamjólk. Ekki er  víst að þið þurfið allan vökvann svo geymið alveg þangað til síðast
  • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
  • Ég nota Hipp Organic, Organix eða Holle barnamat. Þessi merki eiga það sameiginlegt að vera lífrænt framleidd og eru ekki með viðbættum sykri.
  • Í staðinn fyrir barnamat má nota eplamauk (enska: Apple sauce) úr heilsubúð eða heilsudeildum matvöruverslana.
  • Ef afgangur er af barnamatnum má frysta hann í ísmolabox og nota í drykk síðar (smoothie).
  • Nota má hreint hlynsíróp (enska: maple syrup) í staðinn fyrir agevesíróp.
  • Notið hamingjuegg ef þið mögulega getið.

Ummæli um uppskriftina

Rúna Magga
12. sep. 2011

mmm... yndislegar. Bláberin njóta sín svo sannarlega í þessum muffins. Ég mæli eindregið með þeim.

sigrun
13. sep. 2011

Gaman að heyra og takk fyrir að deila með okkur :)

Bergdís
31. okt. 2012

Var að prufa þessar og þær eru æðislegar, bragðgóðar og einfaldar. Það er sérstaklega gott fyrir okkur óvönu bakarana að fá öll frábæru ráðin sem fylgja uppskriftunum :)

sigrun
31. okt. 2012

Reglulega gaman að heyra það :)

Bjarnhildur
19. nóv. 2012

Virkilega ánægð með þessa uppskrift. Ekki of sæt en samt svo góð og litlu frændur mínir voru líka jafn hrifnir og ég :)

sigrun
19. nóv. 2012

Flott að heyra Bjarnhildur....og sérstaklega gaman að heyra að litlu frændurnir hafi verið ánægðir....yngsta fólkið er oft hörðustu gagnrýnendurnir :)

Soley E
25. nóv. 2012

Nú er ég búin að prófa ýmislegt hér á síðunni og finnst allt gott en ég verð að segja að þetta er það besta hingað til.. Það er hrein hamingja í hverjum bita!

Ég fattaði reyndar ekki fyrr en ég var byrjuð að gera þessar að það var búið að klára alla mjólk á heimilinu svo ég setti smá af vatni í staðin en þær voru samt svona góðar.

sigrun
25. nóv. 2012

Takk fyrir Sóley, gaman að fá hrós :)

Ásta Hrund
04. feb. 2013

Þessar muffins eru æði - mínar nýju uppáhalds! Ég breytti reyndar uppskriftinni smá. Gleymdi að kaupa bláber en átti skógarberjablöndu í frystinum sem ég notaði í staðinn og það kom mjög vel út. Meira að segja maðurinn minn, sem er almennt ekki mikið fyrir hollustu kökur, var mjög hrifinn af þessum, svo ég hef góða ástæðu til að baka þær aftur :)

sigrun
05. feb. 2013

Skógarberjablanda hljómar vel :) Takk fyrir að deila :)