Afmælisdöðluterta

Ég hef gert þessa köku fyrir ótal afmælisveislur, fermingarveislur, jólaboð, kaffiboð o.fl. Kakan hentar vel í alls kyns boð því hún er glúteinlaus, eggjalaus og mjólkurlaus og er því upplögð þegar gestir hafa þess konar ofnæmi eða óþol. Í hvert einasta skipti sem ég geri kökuna fyrir aðra, gleymi ég að gera köku aukalega fyrir mig og Jóhannes. Þessi kaka er næstum því búin að kosta hjónaskilnað í hvert skipti sem hún er bökuð.... Jóhannes: „hvernig GET ég gert honum það að baka kökur, látið þær standa á borðinu og gefa þær svo bara í burtu?” Það tekur hann langan tíma að fyrirgefa mér í hvert skipti. Eitt sinn þegar ég gerði kökuna var það fyrir fermingarveislu Mána frænda míns. Ég gerði þrjár kökur og það var tæplega hálf kaka afgangs og af því það var svo mikill matur afgangs líka, sagði Elín mágkona mér bara að kippa henni með heim. Á leiðinni heim, ríghélt Jóhannes í kökuna og sleppti henni ekki úr augsýn. Hann gjóaði augum á mig alla leiðina heim og ruggaði sér fram og til baka (ok ýki kannski aðeins) með kökuna í fanginu, tryllingslega glaður.

Hægt er að gera kökuna með dags fyrirvara og má þannig spara sér tíma ef maður er að útbúa hana fyrir veislu. Skreytið kökuna rétt áður en á að bera hana fram.

Athugið að best er að nota matvinnsluvél fyrir þessa uppskrift. Ef þið finnið heslihnetur án hýðis er þægilegt að flýta fyrir sér með því að nota þær. Athugið einnig að þið þurfið 24 sm bökunarform fyrir kökuna.

Athugið einnig að á myndinni má sjá banana í sneiðum ofan á kökunni en nota má hvaða ávexti eða ber sem er.


Afmælisdöðlutertan sígilda og góða

Þessi uppskrift er:

 • Án glúteins
 • Án mjólkur
 • Án eggja
 • Vegan

Afmælisdöðluterta

Gerir 1 köku

Innihald

 • 125 g þurrkaðar döðlur
 • 200 ml appelsínu- eða eplasafi
 • 50 g heslihnetur
 • 50 g cashewhnetur
 • 100 g möndlur
 • 1 tsk vínsteinslyftiduft
 • 1 vel þroskaður banani (og e.t.v. tveir ofan á)
 • 1 msk kókosolía
 • 1 tsk kanill
 • 0,5 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
 • 45 g kókosmjöl
 • 100 ml lífrænt framleiddur barnamatur án sykurs; epla-, peru eða aprikósumauk
 • Ef ekki eru notaðir bananar ofan á, má nota ber eða aðra ávexti
 • 50 g dökkt, lífrænt ræktað súkkulaði með hrásykri (má sleppa)

Aðferð

 1. Saxið döðlurnar gróft og setjið í lítinn pott ásamt appelsínusafanum. Sjóðið döðlurnar í um 10-15 mínútur.
 2. Ef þið notið heilar heslihnetur með hýði, þurristið þá hneturnar á heitri pönnu. Til að þurrrista á pönnu er best að hita hana á fullum hita og rista hneturnar í 2-3 mínútur eða þangað til hýðið fer að losna. Kælið og nuddið hýðinu af.
 3. Setjið heslihnetur, cashewhnetur og möndlur í matvinnsluvélina og blandið í 10-15 sekúndur eða þangað til hneturnar eru orðnar nokkuð fínt malaðar (en ekki duftkenndar). Setjið í stóra skál.
 4. Setjið döðlurnar í matvinnsluvél með u.þ.b. helmingnum af appelsínu- eða eplasafanum, gætið þess að deigið verði ekki of blautt. Bætið afgangnum af vökvanum út í ef þarf. Setjið í stóru skálina.
 5. Stappið bananann.
 6. Bætið kókosolíu, banana, salti, kókosmjöli, kanil og vínsteinslyftidufti út í skálina og hrærið mjög vel.
 7. Klæðið 24 sm bökunarform að innan með bökunarpappír. Hellið deiginu út í formið og þrýstið vel niður í botninn. Bakið við 180°C í um 20-25 mínútur.
 8. Þegar kakan er komin úr ofninum, stingið hana alla þá með litlum, beittum hnífi og smyrjið barnamatnum strax yfir kökuna í þykku lagi. Leyfið kökunni að kólna í um klukkustund.
 9. Skreytið með ferskum vel þroskuðum ávöxtum t.d. kiwi, mandarínum, jarðarberjum, hálfum vínberjum o.s.frv. Einnig er gott að setja bananasneiðar ofan á sem og kókosflögur.
 10. Bræðið súkkulaði og hellið yfir kökuna (má sleppa). 

Gott að hafa í huga

 • Passið að deigið verði ekki of blautt..annars endið þið með döðlumús!!
 • Í staðinn fyrir banana má nota vel þroskaða peru eða vel þroskað mango.
 • Nota má Brasilíuhnetur og pecanhnetur á móti möndlunum.
 • Ef kókosolían er hörð má stinga krukkunni í heitt vatn í nokkrar mínútur þar til hún verður fljótandi.
 • Ég nota Hipp Organic, Organix eða Holle barnamat. Þessi merki eiga það sameiginlegt að vera lífrænt framleidd og eru ekki með viðbættum sykri.
 • Í staðinn fyrir barnamat má nota eplamauk (enska: Apple sauce) úr heilsubúð eða heilsudeildum matvöruverslana.
 • Ef afgangur er af barnamatnum má frysta hann í ísmolabox og nota í drykk síðar (smoothie).

Ummæli um uppskriftina

Melkorka
20. nóv. 2010

Þessi kaka er svo góð, kom í stað súkkulaðis fyrir mig á tímabili. Ekkert annað hefur hjálpað mér eins mikið að skipta út óhollu fyrir hollt.

gestur
15. sep. 2011

Er hægt að frysta þessa köku?

sigrun
15. sep. 2011

Já það er vel hægt, svo lengi sem þú bíður með að setja ávaxtamaukið ofan á kökuna sem og ávextina eða það sem þú skreytir hana með. Um leið og hún kemur út úr ofninum, skaltu kæla hana, pakka inn og svo setja í frystinn. Geymist í nokkrum mánuði í góðum frysti. Einnig er gott að skera hana í sneiðar og hita sneið og sneið í ofninum.

gestur
15. sep. 2011

Takk fyrir! Er samt hægt að nota hakkaðar hnetur í pakka eða er betra að hafa þær meira malaðar?

sigrun
15. sep. 2011

Það er betra að hafa þær meira malaðar svo 'deigið' haldist betur saman. Ef þú átt ekki matvinnsluvél geturðu sett hneturnar í poka og 'valtað' yfir þær með t.d. glerflösku eða kökukeflið eða marið þær með einhverju þungu. Þær þurfa ekki að vera fínmalaðar heldur eiga þær að vera betur malaðar en t.d. hökkuðu heslihneturnar í pokunum sem fást í búðunum heima.

gestur
16. sep. 2011

Takk fyrir, gott að fá alltaf svör til baka! En ein svona spurning að lokum á barnamaturinn að fara inn í kökuna þegar þú skerð í hana? Ég var nefnilega að hugsa um að baka hana og frysta og ég var að hugsa hvernig ég myndi þá gera þetta með barnamatinn. Hita ég hana upp eftir að hafa afþýtt hana?

sigrun
16. sep. 2011

Það er best að baka kökuna, kæla, setja í frystinn og svo þegar þú ætlar að hita hana upp bakarðu hana bara í 10 mín eða svo, tekur hana út og setur svo barnamatinn strax ofan á (best að smyrja með skeið eða álíka)...svo kælirðu kökuna aðeins og skreytir t.d. með ávöxtum eða hnetum :)

gestur
04. okt. 2011

ég er að gera þessa í annað sinn, takk hún er mjög góð. Ein spurning, ef það á fyrst að borða hana daginn eftir á maður samt að setja ávextina kvöldinu áður

sigrun
04. okt. 2011

Ertu að meina að frysta hana og borða daginn eftir? Þú getur fryst hana deginum áður (og gott að hita hana upp aðeins til að gera hana meira krönsjí). Kældu hana svo og settu ávextina á. Það er ekki gott að frysta hana með ávöxtunum.

heidveig
23. okt. 2011

ég bakadi thessa köku um helginna og hún er aleg frábærlega gód, en thar se ég hafdi gleymt ad kaupa barnamauk thá bjó ég sjálf til avaxtamauk af eplum, ég er med eplatré í gardinum svo ég á nóg af theim.
Èg mæli med thessari uppskrift og hun er betri eftir ad haf stadid svolítid

sigrun
23. okt. 2011

Mmmm heppin að hafa eplatré í garðinum :).......Gaman að heyra að þér líkaði kakan vel :)

Helga Helgad.
07. apr. 2012

Mér líst mjög vel á þessa köku :) Er í lagi að sleppa cashewhnetunum en hafa meira af möndlum og heslihnetum í staðinn?

sigrun
07. apr. 2012

Það ætti að vera í góðu lagi :)

gestur
25. apr. 2012

sæl Sigrún, langar að prófa að gera þessa köku :) en er eitthvað var í að gera hana án hneta? , og hvernig er það þá best? einn fjölskyldumeðlimurinn er með ofnæmi. :(
kv. Harpa(gestur)

sigrun
26. apr. 2012

Sæl Harpa....ég myndi ekki mæla með því að gera kökuna hnetulausa, hneturnar gefa svo afgerandi bragð í kökunni. Þú gætir kannski prófað aðra köku sem er hnetulaus t.d. gulrótarkökuna?

Guðlín
27. jún. 2012

Sæl Sigrún

Er hægt að nota eitthvað í staðinn fyrir bananann þar sem ég borða ekki svoleiðis ?

sigrun
27. jún. 2012

&;Sæl

Þú getur notað vel þroskaða og maukaða peru eða 1/2 mango.

gestur
24. jún. 2014

hæhæ, er að spá í að gera þessa í dag, en bera fram á morgun.
Er betra að setja barnamaukið strax á og kæla í ísskáp, svo ávexti ofan á á morgun ?

sigrun
24. jún. 2014

Jú það er allt í lagi, svo lengi sem ávextirnir fara ofan á kökuna á morgun. Kakan verður aðeins orðin mjúk á morgun en ef þér er sama um það geturðu vel bakað hana í dag :)

Anna Eyjolfsdottir
19. maí. 2015

Hæ, Myndirðu geyma kökuna í kæli með barnamauki (án ávaxta) ef það á að baka hana í dag og borða í fyrramálið. Hún má alveg vera mjúk. Hún er fyrir hressa 3ja ára krakka :)

Takk fyrir flotta síðu

sigrun
19. maí. 2015

Jú það ætti að ganga upp :) Taktu hana út 30-60 mínútum áður en á að borða hana. 

Anna Eyjolfsdottir
19. maí. 2015

Vá hvað þú ert fljót að svara :) Hlakka til að sjá hvað leikskólabörnum finnst um þessa:) Takk

sigrun
19. maí. 2015

Gott mál :) Vonandi fellur kakan í kramið hjá börnunum :)

tinnaarna
31. okt. 2015

Sæl, ég er greinilega ein um að skilja ekkert í þessu með þurrkuðu döðlurnar. Á að sjóða þær allar í öllum safanum en samt líka setja svo í matvinnsluvél með helmingnum af safanum? Ég er alveg ringluð

sigrun
31. okt. 2015

Þú sýður döðlurnar í safanum og setur þær svo í matvinnsluvél ásamt helmingnum af safanum sem er í pottinum.....nema þurfi meiri safa, þá bætirðu honum við.

Kristin Kjartansdottir
24. feb. 2016

Sæl!

Er búin að gera þessa köku tvisvar og finnst hún æði :) Fæ mér reyndar þeyttan rjóma með stundum. Langar að gera eina köku í langpönnu er ég þá bara að tvöfalda uppskriftina eða hvernig verða hlutföllin þá ?

sigrun
24. feb. 2016

Sæl

Gaman að heyra (ég fæ mér alltaf þeyttan rjóma með líka) :)

Það fer eftir því hvað pannan þín er stór, hver hlutföllin verða. Ef hún er tvöfalt stærri en þvermálið sem er gefið upp á forminu, myndi ég prófa að tvöfalda uppskriftina, það ætti að vera í lagi. Ef það er stærra og deigið þynnra er hætta á að kakan brenni svo fylgstu bara vel með baksturstímanum. Þú ættir að fara að þekkja kökuna ágætlega núna og hvenær hún virðist tilbúin :)

Margrét Árna
29. maí. 2017

Hæhæ :) Er þetta súkkulaði eða hvað sem þú ert búin að setja yfir bananana á myndinni?

sigrun
29. maí. 2017

Já, held að ég hafi átt eitthvað afgangssúkkulaði sem ég bræddi og henti yfir. Líklega um 50 g eða svo af dökku súkkulaði. Það þarf ekki mikið til að gefa smá bragð. Súkkulaðið er alveg óþarfi svo sem :) 

Andreaoo
16. sep. 2017

Æðisleg uppskrift sem sló alveg í gegn hjá vinkonuhópnum.
Setti bláber og rifsber með stönglunum og bræddi smá súkkulaði og hafði jurta vanilluís með.
Frábærar uppskriftir hjá þér sem ég kann að meta!

sigrun
16. sep. 2017

Mmmm hljómar vel, takk fyrir að gefa okkur endurgjöf, alltaf gaman að heyra ef fólki líkar vel :)