Ævintýragrasker í kókosmjólk
20. október, 2007
Þessi réttur fylgdi með spínatréttinum úr dularfulla húsinu í skóginum í Nairobi.
Mjög einfaldur og mildur réttur sem hentar vel sem meðlæti fyrir alls kyns rétti. Upplagður þegar grasker eru komin á kreik í október og nóvember. Eins og með flest grænmeti í Afríku er það vel salt þegar það er borið fram og það sama á við um þennan rétt. Minnkið saltið eftir smekk.
Ævintýragraskerið frá Nairobi
Þessi uppskrift er:
- Án glúteins
- Án mjólkur
- Án eggja
- Án hneta
- Vegan
Ævintýragrasker í kókosmjólk
Fyrir 4 sem meðlæti
Innihald
- 200 g grasker, afhýtt, fræhreinsað og saxað gróft
- 50 ml kókosmjólk
- 1 tsk salt (Himalaya eða sjávarsalt)
- 0,5 tsk cayennepipar
- 1 tsk ferskt coriander, saxað (má sleppa)
Aðferð
- Takið börkinn af graskerinu og skerið graskerið í grófa bita (munnbitsstóra).
- Sjóðið graskerið í vatni og helmingnum af saltinu (0,5 tsk) þannig að fljóti yfir. Sjóðið í um 15 mínútur eða þangað til graskerið er nokkuð mjúkt þó ekki alveg lint.
- Hellið vatninu af og setjið aftur í pottinn ásamt kókosmjólkinni. Saltið með afganginum eða 0,5 tsk af saltinu.
- Hitið en sjóðið ekki og berið fram heitt.
- Saxið coriander smátt.
- Kryddið með cayennepipar og coriander.
Gott að hafa í huga
- Nota má butternut squash í staðinn fyrir grasker.
- Ef afgangur er af kókosmjólkinni má frysta hana í ísmolabox og nota síðar, t.d. í svona súpur.
Tengdar uppskriftir
© CafeSigrun 2024