Heima er laaaangbest

Jæja...þá er ég komin heim og mikið ROSALEGA er gott að vera komin heim. Sem betur fer hef ég ekki oft þurft að liggja á spítala og á vonandi ekki eftir að liggja oftar. Þetta gekk í sjálfu sér vel nema hnéð er auðvitað í lamasessi eftir virkilega brútal aðgerð (eins og læknirinn sagði sjálfur). Hnéð var hreinlega þvingað í rétta stöðu og svo voru samgróningar rifnir upp. Virkilega viðbjóðslegt og eins gott að ég var algjörlega meðvitundarlaus á meðan (svæfð). Sjúkraþjálfun hófst strax á spítalanum og var og er algjört helvíti. Ég hefði ekki getað trúað því hversu mikið maður getur meitt sig án þess að skemma eitthvað. Ég hef sem betur fer ekki mikla reynslu af spítölum en þessi reynsla var ekki sérstaklega jákvæð. Læknirinn minn var reyndar frábær og tékkaði á mér á hverjum degi og hringdi svo daginn sem ég fór heim...hann stóð sig í stykkinu og vel það. Hann tróð mér inn á deild sem er að jafnaði troðfull með margra mánaða biðlista. Þar sem ég var flokkuð sem bráðatilfelli tókst honum að smokra mér inn með herkjum. Hann er nefnilega ekki læknir á spítalanum sem gerði málið flóknara.

Það voru hins vegar nokkur atriði á spítalanum sem mér fannst furðuleg. Ég nefnilega hélt að allt hjúkrunarfólk væri hálfpartinn með geislabauga (og ég held reyndar að flest hjúkrunarfólk sé þannig). Á þessari deild var það ekki alveg svo. Í stofunni minni lágu reyndar konur sem voru búnar að fara í afar erfiðar mjaðmaaðgerðir og auðvitað eiga þær að fá meiri umönnun en ég....en ég var líka kvalin og þurfti aðstoð og eftirfylgni sem var ekki alveg að gerast. Nokkur dæmi:

  • Ég þurfti ítrekað að biðja um eitthvað að drekka. Eitthvað sem ég hélt að kæmi bara án þess að maður þyrfti að biðja sérstaklega um það.
  • Það kom enginn til að spyrja hvernig maður hefði það, hvort eitthvað vantaði, hvort allt væri í lagi og svoleiðis...ég hélt að það væri m.a. það sem hjúkrunarfólk gerði.
  • Skvaldur, sjónvarp úr kaffistofu starfsfólks, glamur í diskum o.fl. háværar raddir (um saumaklúbba og garðyrkju) gerði manni töluvert erfitt fyrir að sofa.
  • Það var ekki dregið fyrir gluggana að kvöldi sem þýddi að mjög bjart var í herberginu. Ég svaf með diskaþurrku ofan á augunum.
  • Ég fékk afar sterk verkjalyf sem valda ógleði. Ég kastaði þeim upp 3var, um 10 mínútum eftir að ég tók þau inn ásamt öllu því sem ég borðaði yfir daginn, öðrum verkjalyfjum og meira til. Hjúkrunarfræðingurinn (kona) á vakt fylgdist ekki með því hvort ég héldi þeim niðri í 3ja skipti. Fyrirmæli frá lækni voru skýr. "Hún má ekki finna til, annars getum við gleymt bata". Fyrirmælum var ekki fylgt.
  • Þessi sama kona missti eina töfluna í gólfið, tók hana upp og sagði að gólfið væri nógu hreint...ég gæti alveg borðað töfluna. Ég get ekki sagt að ég hafi haft lyst á því þar sem að taflan lá í gangvegi salernisins að rúminu mínu.
  • Ég þurfti að biðja um annan skammt af verkjalyfjum eftir uppköstin. Eitthvað sem hún ætlaði ekki að láta mig fá í fyrstu.
  • Þessi sama hjúkrunarfræðingur sá mig koma sveitta af klósettinu, skjálfandi með hárið klesst við andlitið, með rauðþrútin og tárvot augu af áreynslu og náföla. Hún hugsaði eitthvað um hina konuna í herberginu, horfði á mig án þess að segja orð og fór út. Hún spurði mig ekki hvernig ég hefði það, hvort ég þyrfti vatn, hrein föt, handklæði eða neitt slíkt. Ég þurfti að kalla á hana til að fá vatn. Ég hafði kastað upp um 3 lítrum af vökva en var ekki boðið vatn? Mér hefur sjaldan liðið jafn illa. Ég snerti ekki á kvöldmatnum og upp úr kl 21 spurði ég hjúkrunarfræðinginn hvort ég ætti ekki að borða eitthvað með næsta skammti af verkjalyfjum? "Nei nei þú þarft þess ekki"....verkjalyf fara illa í mig og hún vissi það og verkjalyf fara yfirleitt illa í fólk á fastandi maga....mér finnst svolítið skrítið að neita mér um að borða eftir að hafa kastað upp öllum mat og vökva og nóttin framundan. Nóttin var líka mjög, mjög löng. Ég hafði ekki neina lyst en hefði pínt ofan í mig ristuðu brauði. Niðurstaðan var sú að ég treysti mér ekki til að taka inn verkjalyfin...eitthvað sem læknirinn minn hafði tekið skýrt fram að ég mætti ekki sleppa...
  • Sama kvöld var ég að reyna að hvílast og klukkan var um 22.30. Þá komu nokkrar hjúkrunarkonur inn og töluðu svo hátt að þær hefðu getað kallað niður í kjallarann með röddinni einni saman. Óþolandi tillitsleysi við mikið vankaðan sjúkling í næsta rúmi. Ég hafði ekki sofið dúr nóttina áður því konan í rúminu "hraut" svo rosalega. Ég set "hraut" í gæsalappir því svona hljóð hef ég bara heyrt í hópi af flóðhestum að slást. Lygilegt. Ég sagði líka við Jóhannes að ég ætlaði aldrei aftur að kvarta undan "malinu" í honum....reyndar braut ég loforðið í nótt þegar ég sparkaði í hann...en hann er vanur :) Ég hafði stungið ipod í eyrun og hlustaði frekar á háværa tónlist heldur en að hlusta á hrotur því ég þoli þær ekki. Seinni nóttina leið mér of illa í maganum og í hnénu til að sofa nokkuð en einnig voru of mikil læti (í starfsfólki) frammi á ganginum.
  • Þegar kom að útskrift um hádegi í gær (búin að bíða í 4 tíma eftir lækni til að fá leyfi til að fara heim) fékk ég læknanema (sem er auðvitað ok). Þessi stúlka hlustaði á mig kvartandi um verkjalyf og uppköst og ég sagði henni að ég þyldi aðeins eitt ákveðið verkjalyf og ég gæti bara og eingöngu tekið þau inn. Önnur lyf myndu orsaka magakvalir eða ógleði. Hún lofaði að ávísa þeim lyfjum. Hún kom svo með lyfseðilinn 10 mínútum seinna og ég spurði til öryggis hvort að þetta væru ekki þær töflur sem ég bað um. Hún játti því.
  • Ég kom heim í gær og hef sjaldan eða aldrei verið jafn glöð að koma heim til mín og að hafa Jóhannes er bara lúxus því hann er 100 sinnum meiri hjúkrunarfræðingur en þessar konur sem voru að sinna mér. Hann ætti að fá orðu.
  • Í nótt var ég sárkvalin í maganum og ég skildi ekki hvers vegna því þessi lyf áttu að vera ok. Mig fór að gruna undir morgunn að þetta væru ekki réttu lyfin. Ég fletti þeim upp á Netinu og mikið rétt. Þessi lyf eru ekki sýruþolin eins og þau áttu að vera sem þýðir að innyflin eru á hvolfi og ég að kálast í maganum. Ég þurfti sjálf að punga út fyrir nýjum töflum í morgun því apótekið tekur ekki við lyfjum sem hafa farið út frá þeim.
  • Ég er ekkert sérstaklega glöð með upplifun mína á spítalanum. Það eina jákvæða var að ég fékk skemmtilegar heimsóknir (frá Jóhannesi auðvitað, pabba, Smára bróður, Þorgeiri, Sigrúnu Ásu og strákunum, Ragnari Frey (lækni) og Ragnari Frey (læknanema manni Sigrúnar)....(ekki sami maðurinn he he) en ótrúlega fyndið samt þegar tveir í sloppi standa yfir manni með sama nafninu...(örugglega margir sem halda að þeir séu svona dópaðir að þeir sjái tvöfalt). Alltaf skemmtilegt að fá heimsóknir þó maður sé myglaður. Annað jákvætt var að maturinn var merkilega góður. Ég fékk prýðilega grænmetisrétti (baunapottrétti) með hrísgrjónum og soðnu grænmeti, eitthvað sem ég hefði verið glöð að elda sjálf eða jafnvel fá á góðum grænmetisstað. Hafragrauturinn í morgunmat var reyndar viðbjóður...álíka bragðlaus og blautt dagblað. Það er ekki erfitt að gera hafragraut góðan, bara að passa að áferðin verði ekki of "blaut" og að setja smá salt í hann til að fá bragð. Maturinn hins vegar, þó góður hafi verið stoppaði stutt við í maganum og fór beinustu leið í klósettið, nánast ómeltur.

Ég fór inn á spítalan hölt en kom út af honum svöng, pirruð, örþreytt, ósofin, illt í maganum, marin og hölt. Ekki sérstaklega góð niðurstaða en svo lengi sem hnéð kemur út úr þessu ok þá er það fyrir öllu. Ég er bara svo þakklát fyrir að hafa annars góða heilsu og þakklát fyrir að vera ekki á spítala í þróunarlöndunum.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Jóhanna
06. júl. 2008

Guð minn góður! Þetta er alveg voðalegt! :-( Ég á bara ekki orð!

Til hamingju með að vera komin heim! Heima er svo sannarlega alltaf best.

Lisa Hjalt
06. júl. 2008

Af hverju var verið að láta þig taka inn töflur? Af hverju fékkstu ekki bara sprautur í lærið? Minnir að ég hafi fengið svoleiðis eftir einhverja aðgerð; var fölari en andskotinn og hélt engu niðri!

Reynsla mín af hjúkrunarfólki er í flestum tilfellum mjög góð. En ég man eftir andvökunóttum sökum hávaða og ekki voru það vistmenn eða gestir sem sköpuðu hann!!!

Gott að þú ert komin heim til Jóhannesar og Elektru ;)

annaokunn
14. júl. 2008

æææ, ég vona að þau á spítalanum fái að lesa þetta. þarf greinilega að bæta þjónustuna á þessari deild. sendi annars batakveðjur, þú hefur greinilega ekki átt sjö dagana sæla þegar kemur að meiðslum, úff!

Hófí
15. júl. 2008

Úff þetta er hryllingssaga! Þú ættir að senda þetta á spítalann, svona á ekki að viðgangast...

Alma María
29. júl. 2008

Úffi púff. Alveg skelfing að lesa þetta um kollega mína :(

Já við erum mörg og misjöfn í þessum geira. Vona að þú náir loks bata í hnénu svo þú getir nú farið að hlaupa ;)

Batakveðja frá mér