Hvirfilbylir og eldsvoðar: óhappa-happadagurinn 7. des.

Hljómar rosa dramatískt. Það var nú kannski ekki alveg svona mikið drama en alveg nóg samt. Dagurinn byrjaði ósköp venjulega...við fórum í ræktina um morguninn í sólskini og góðu veðri og ég var heima að vinna í gær. Svo einhvern tímann um 10.30 leytið varð himininn svartur og ég meina SVARTUR. Fyrr en varði brast á hrikalegt haglél (þannig að þjófavarnir í bílum fóru í gang), drynjandi þrumur og eldingablossar. Svo fór húsið að hristast. Ekki mikið en nóg til að ég lyfti augabrúnunum. Miðað við að húsið er samfast tveimur öðrum húsum (en stendur reyndar á horni) var þetta nokkuð spes. Það kom svo í ljós að 150 hús skemmdust töluvert hér aðeins norðar í borginni, einn slasaðist alvarlega og 6 aðrir minniháttar.

En jæja ég átti að mæta á fund vegna vinnunnar hér úti klukkan 14 og var að hafa mig til. Það var þá sem ég fór að finna reykjarlykt. Ég hafði verið að stússa í eldhúsinu fyrr um morguninn og hélt ég hefði gleymt að slökkva á einhverju en ég þefaði út um allt og skoðaði og ég fann ekkert athugavert. Ég þefaði meira út í loftið og elti lyktina fram á gang. Þar tók á móti mér ansi sterk reykjarlykt. Þetta var reykjarlykt sem ég kannaðist við þar sem ég hef fundið lykt af húsnæði sem hefur brunnið....svona súr og sterk lykt sem erfitt að lýsa. Ég hljóp upp og niður stigana (6 hæðir) og þreifaði á öllum hurðum en þær voru ekki heitar. Ég opnaði allar bréfalúgurnar en fann enga lykt. Þetta var mjög skrýtið og lyktin var orðin mjög megn efst uppi (enda stígur reykurinn upp). Ég ákvað að tékka á því hvort einhver væri heima í íbúðunum og bankaði. Sarah á hæðinni fyrir ofan reyndist vera heima og hún var farin að undrast um þessa lykt líka. Þegar hún kom fram á gang sagði hún strax "ok ég hringi á slökkviliðið". Sem hún gerði. Á meðan hljóp ég niður í okkar íbúð og pakkaði saman tölvunni minni, myndavélinni nýju, linsunum og lausum peningum og hljóp út. Jóhannes var nú eitthvað svekktur yfir því að ég hafi gleymt hans tölvu he he. Það var alveg satt, ég hugsaði bara um mína tölvu :) Sumum myndi kannski finnast skrýtið að taka þetta dót frekar en eitthvað annað en ég ætlaði ekki að láta þetta dót brenna inni miðað við það sem gerðist fyrir akkúrat ári síðan upp á dag þegar öllu var stolið þ.m.t. myndavél, nýjum linsum, fartölvum o.fl., o.fl. Á leiðinni niður stigann var ég svo að hugsa um allar matreiðslubækurnar mínar, velti því fyrir mér að taka uppáhaldsbækurnar mínar en fór svo að hugsa um að ég þyrfti jafnvel að kaupa fullt af nýjum matreiðslubókum. Varð svolítið æst við þá tilhugsun (þó ég vilji auðvitað ekki að þær brenni sko).

Ég fór upp og tékkaði á því hvort að Sarah væri ekki að koma (vildi ekki skilja hana eftir) og við hlupum út. Í sömu andrá birtust 2 slökkviliðsbílar og margir, margir fílefldir slökkviliðsmenn (þó þeir hafi nú ekki verið eins fílefldir og Jóhannes vildi meina). Held hann hafi verið eitthvað strekktur yfir því hvað ég lofaði slökkviliðsmennina mikið, bæði vasklega framgöngu þeirra sem og líkamlegt atgervi (þeir voru í mjög góðu formi því þeir nánast klifruðu upp veggi þannig að ég og Sarah gripum fyrir augun (en kíktum á milli fingranna því þetta var jú alveg ágætt útsýni)). En bara svo það sé á hreinu þá settum við ekki eldinn af stað þ.e.  eins og sumir vildu meina he he.

Nú jæja slökkviðliðsmennirnir gerðu það sama og ég hafði gert, þreifuðu á hurðunum o.fl. og klóruðu sér í hausnum yfir því að enginn eldur væri neins staðar þangað til ég benti þeim á að það væri kjallari í húsinu. Þeir stukku (og ég meina stukku) yfir tæpa 1,5 metra járngirðingu og klifruðu tindilfættir niður vegginn. Þeir sáu og fundu strax að þarna var eldur. Það hafði gleymst að slökkva undir potti frá því um morguninn og var farinn að krauma eldur í pottinum og mikill reykur. Þeir brutu upp hurðina og slökktu það sem þurfti að slökkva. Brandarinn var að það kom maður aðvífandi (alveg óþolandi besservissi) sem sagðist vera með lykla að hurðinni hjá eigendum kjallarans. Hann tjáði okkur það að við hefðum átt að bíða með að hringja því nú væri búið að skemma útidyrahurðina sem honum fannst alveg ómögulegt. Ég og Sarah hvæstum á hann og okkur fannst við alveg geta hvæst svolítið á hann þar sem við stóðum með 3 slökkviliðsmenn í fullum skrúða á bak við okkur. Þeir hvæstu svolítið á hann líka og lásu pínulítið yfir honum. Sögðu honum að það skipti ekki máli þegar maður finnur reykjarlykt hvort einhver sé "kannski" á leið með lyklana því það hefði einhver getað verið þarna inni, maður HRINGIR og það STRAX og þeir koma og brjóta niður hurðina ef enginn svarar bankinu. Þeir þökkuðu okkur svo kærlega fyrir að hafa hringt, við hefðum bjargað miklu. Við vorum bara ánægðar með okkur og held að okkur báðum hafi langað að ulla á karlbjálfann.

Þarna skall hurð nærri hælum. Ef við Sarah hefðum ekki verið heima hefði getað farið illa því húsið er um 300 ára gamalt og mikið af timbri inn í því þó það sé aðallega úr múrsteini. Ég bara trúði því ekki að akkúrat ári upp á dag eftir innbrot og allt það vesen, að væri að kvikna í húsinu líka.

Í dag er svo akkúrat ár frá aðgerðinni á hnénu. Í stuttu máli er ég álíka slæm og ég var og ekki enn þá farin að geta hlaupið á hlaupabretti eða ganga almennilega á fjöll þó ég geti gert flest annað. Það er alltaf bólgið, alltaf sárt og ég get aldrei gert eins mikið og ég vil. Ég veit að þetta gæti verið miklu verra en þetta pirrar mig samt og ég er mjög vonsvikin yfir árangrinum svo ekki sé meira sagt. Sérstaklega þar sem ég fer 3var í viku í ræktina og hef verið í sjúkraþjálfun :( Það líða líka 3-4 mánuðir á milli skoðana hjá læknum sem eru alltaf að færa til tímana þannig að t.d. tími sem ég átti að eiga í september var færður fram til mars á næsta ári. Ekki batnar það þegar það er alltaf nýr og nýr læknir sem skoðar mann. Ég er búin að vera með 9 lækna (10 í allt) frá því að ég var fyrst skoðuð. En jæja skítt með það, ég hef lappir og þær bera mig á flesta staði sem ég vil.

Og hvernig eru þetta svo happadagar? Jú fyrir ári síðan hefði getað farið mun verr ef brotist hefði verið inn 2 dögum seinna. Ég hefði þá legið upp í rúmi ósjálfbjarga. Ekki skemmtileg tilhugsun. Þó að tjónið (ótryggð) hafi verið upp á 600 þúsund þá vorum við bæði heil. Í gær hefði líka getað farið mun verr en gerði.

Svo kannski er bara eitthvað happaský yfir okkur eftir allt saman.

Senda á facebook   Senda uppskriftina á twitter   Pin It  

Ummæli

Jóhanna
10. des. 2006

Til að losna við bólguna í hnénu er gott að setja epla edik cider í viskustykki, vefja því um hnéð og svo setja plastfilmu utanum allt saman til að halda rakanum (og minnka lyktina af edikinu). Þetta hefurðu á hnéu í 2 klst. Tekur svo af og leyfir húðinni að anda í ca klst og svo máttu setja þetta aftur á í klst. Ef þig svíður undan edikinu má blanda það 1 á móti 3 af vatni en best að hafa það óblandað. Ef sár er á húðinni er gott að setja vaselín yfir það svo ekki komist edik í sárið.

Svo væri nú gott fyrir þig að finna þér Bowen tækni á þínu svæði og fá hann til að laga á þér hnéið. Þú finnur slóðir á síðunni minni.

JólaKveðja úr snjónum á Akureyri, hlakka til að prófa uppskriftirnar þínar. Var bara að frétta af þessari síðu